Dæmigerð dagbókarfærsla

SturtusveifÞessi dagur hefur verið svona sitt lítið af hverju, aðallega í því skyni að koma að einhverjum skólabókalestri. Eftir að hafa lesið fram eftir morgni í nokkrum skorpum fór ég að taka svolítið til inni hjá mér, m.a. að hella burt vatni af loftkælingunni háværu. Það vildi nú ekki betur til en svo að þegar ég sturtaði svo niður í klósettskálinni að vatnsflaumurinn hélt uppi óstöðvandi för sinn um pípulagnir skólans og ég veit ekki hvert. En þar sem öll vötn renna til sjávar vona ég að það skili sér þangað á endanum. Til að halda vatnsreikningi skólans innan eðlilegra marka voru góð ráð dýr enda Erfiðishelgin (Labor Day weekend) á hápunkti og það á messutíma. Alla vega voru allir símar á talhólfi þegar mér loksins tókst að hafa upp á einhverjum númerum til að hringja í. Loks, eftir tveggja tíma frárennsli kom kona með skrúflykil og lagði til við pípulögnina og kom þá í ljós að þetta var undantekningarsalernið sem þurfti að nota skrúfjárn á. Ég er nú ekki svo mikil kveif að hafa ekki reynt að stoppa þennan vatnsflaum en hnífsblaðið dugði mér ekki eftir þá upplýstu ágiskun að skrúfgangurinn væri falinn undir rósettunni hinu megin við sturtusveifina. Ég bíð ekki í það hvernig farið hefði ef lögn hefði gefið sig og flætt úr um allt. Þá hefði ég nú bara hringt í 9-1-1.

Epikuriskur samtiningurEftir þetta Nóaflóð í smækkaðri mynd lagði ég af stað í gönguför til að verða mér úti um fleiri stílabækur. Ég reyni að nota svona erindi til að kynnast hverfunum í kringum mig og fór því gangandi frá endastöð skólabílsins sem við Weslingarnir samnýtum með nemum American University við hliðina. Eftir gott staldur í Office Depot fékk ég mér í svanginn hjá Epicurean kompaníi á Connecticut Avenue og settist með matinn út enda framhlið hússins í skugga á daginn, dró þar fram skólabækur og dvaldi um hríð.

Kona við næsta borð tók mig tali eftir nokkra stund og sagði mér undan og ofan að erindum sínum. Það var öllu léttara hjal en símtalið á borðinu hinu megin við mig um eiginmanninn sem skrapp á barinn í gærkvöldi og kom ekki heim fyrr en eftir hádegi eftir að hafa sofið úr sér í bílnum á planinu eins og venjulega. Ekkert vera að vanda um við mig fyrir að hlusta á annarra manna samtöl. Það þurfti ekkert að hlusta því það komst enginn hjá því að heyra. En þarna sat ég í hlýrri golunni og meðan ég las mér til um flónsku Guðs var ég hluti af þeim lífstakti sem við sláum öll. Ég sá að stundum hef ég verið ágætis flón og að stundum hefði ég mátt vera meira flón.

AkarnÉg valdi svo aðra gönguleið heim á vist og gekk þá fram á sendiráð Ísrael. Viðbúnaðurinn þar var öllu meiri en við hið bandaríska á Laufásveginum og þykir okkur nú nóg um þar. Spölkorni lengra gekk ég fram á eftirlæti Chip og Chap úr Andrésblöðunum. Önnum dagsins var þó hvergi nærri lokið er heim kom. Eftir þrifabað og dundur lagðist ég í handíðir og útbjó teikningamöppu úr pakkakassa sem ég hirti úr endurvinnslustaflanum frammi á gangi og nappaði líka tómum kexpakka og gerði mér hólfabakka í skrifborðsskúffuna þar sem allt veltur hvað um um annað. Ég er nú mest hissa á að einhver borði þennan ósóma, ef ekki vegna óhollustu þá bara vegna þess að þetta er ekki einu sinni gott. Ég get trútt um talað, maulandi á íslenskum lakkrís í súkkulaðihjúp. Heimskt er heimaalið barn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ,
Þetta hefur verið hinn skemmtilegasti dagur hjá þér.

Snorri Halldórsson (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 09:20

2 identicon

Gaman að þessu, Ólöf. Mínínóaflóð á erfiðisdegi.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 04:03

3 identicon

 Sendi þér hlýja kveðju

Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband