Rautt límband

Hér er setið og svitnað yfir skilmálum sjúkratrygginga til að ganga úr skugga um (að svo miklu leyti sem það er hægt) að maður lendi ekki í ógöngum þurfi að leita sér heilsubótar í Vesturheimi. Eiginlega er ég smeykari við það batterí en Tollgæslu- og innflytjendalöggjöfina. Reyndar fékk maðurinn minn að sjá um svitabaðið að mestu svo ég slepp nú tiltölulega vel. Ég vona að ég þurfi aldrei að nota þessa tryggingu.

Lautarferd nynema WTSNámskeiðin eru byrjuð og á ég eftir að fara á tvö þeirra. Þau eru öll hvert öðru áhugaverðara. Listnámskeiðin eru það áberandi, sérstaklega miðað við guðfræðinám. Listadeildin hér er sennilega sú elsta í landinu sem rekin er við guðfræðiskóla. Á listanum mínum eru tvö sálgæslunámskeið. Annað er færninám í sálgæslu og hitt um skapandi leik í starfi leiðtoga. Einnig tek ég námskeið í safnaðarfræðum um greiningarvinnu í safnaðarstarfi. Listnámskeiðin eru þessi: Vinnustofa með staðarlistamanni (sem er ofboðslega frægur - heil færsla um það siðar), íhugandi teiknun (sem krefst frekari útskýringa sem líka fá sér færslu síðar), leikræn miðlun í þjónustu og svo er það kapellukórinn. Við þetta bætist menningarnámskeið fyrir erlenda nýnema og er það skyldunámskeið á fyrstu önn. Rúsínan í pylsuendanum er eftir og verð ég að bíða eftir skýrari línum með þann pakka áður en ég get farið að tjá mig um málið. Þetta er einn kúrs í viðbót á listasviðinu.

Samtals gerir þetta 15 einingar. Það var nú sagt við mig bæði heima og  hér úti að ég yrði að passa mig að taka ekki svona margar einingar. Málið er að ég hef ekkert val. Ég verð að vera í fullu námi til að uppfylla vegabréfsáritunina og til að fá námslán. Og þó skólinn gefi nemum það svigrúm að teljast í fullu námi með aðeins 11 einingar af þeim 15 sem hann setur upp sem fullt nám, kemur mér ekki til hugar bæta við heilu ári á framfærslu hjá LÍN til að geta dundað mér í Ameríku. Nægar verða afborganirnar samt.

Í vikulokin ætla ég svo á útsölu í tilefni Verkalýðsdagsins, Labor Day. Vefnaðarvöruverslunin mín er með útsölu og kumpána (e. coupons) og ég ætla að nota tækifæri og koma mér upp einhverju hráefni til að vinna úr. Ég tók bara með mér áhöld til sauma en efnin vantar mig. Reyndar er ég ekkert nema útsjónarsemin og dró upp úr ruslastampi á ganginum tvennar buxur sem einhver fleygði og klippti úr þeim það sem gagnast mér. Maður veit aldrei hvenær kjarnorkuvetur skellur á og þá er nú gott að geta setið og sauma í kjallaranum hússins sem byggt var þegar kalda stríðið stóð sem hæst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl Ólöf.  Ég óska þér til hamingju með að láta drauminn rætast.  Gangi þér vel í náminu og lífinu í stóra landinu.

Ninna Sif (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 09:35

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Þetta allt sem þú ert að eiga við núna er svo undur spennandi að þú verður, þú VERÐUR að lofa okkur að fylgjast með.  Þú ert eins og fréttamaður í himnaríki. Þú verður að rapportera til okkar hinna sem sitjum og slefum af spenningi....   

Bestu kveðjur yfir hafið...   Baldur  

Baldur Gautur Baldursson, 28.8.2008 kl. 15:01

3 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Hrikalega er þetta allt spennandi. Góða skemmtun

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 28.8.2008 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband