24.8.2008 | 21:34
Öskubuska
Það er margt skrýtið í kýrhausnum og ýmislegt undarlegt í henni Ameríku. Hér hef ég leitað dyrum og dyngjum að áhöldum til að þrífa herbergið mitt en ekki haft árangur sem erfiði. Þegar ég hef spurt á skrifstofunni er mér sagt að það séu ræstiskápar á hverri hæð. Þegar ég segir að þeir séu tómir er svarað til baka að það eigi að vera áhöld þar og þá sé ég fram á jafntefli í borðtennis. Það gildir einu hvað "á" þegar ekki "er" og gagnslaust að sitja við þann keip. Ætli ég beri mig ekki upp við húsvörðinn næst. Hér er það lenska að ráðast á skítinn með sótthreinsunarbrúsa og þá verða allir rólegir. En að þrífa - svo það þurfi ekki að sótthreinsa - það er allt annar handleggur. Á skrifstofunni voru rekin upp stór augu og spurt: "En til hvers viltu ræstiáhöld?". Samt hafði sama skrifstofa beðist afsökunar á því að misfarist hefði að þrífa herbergið mitt fyrir afhendingu. Þá ætti að liggja í augum upp hvað ég vil með kúst og fægiskóflu.
Það er tímabært að gefa smá innsýn í herlegheitin. Hér eru fyrir og eftir myndir úr herberginu mínu, Sölunefndinni. Fleiri mynda er að vænta á næstunni.
Athugasemdir
Heil og sæl kæra Ólöf!
Og hjartanlega til hamingju með þetta allt saman. Ég bara öfunda þig yfir þessu öllu saman. Og til hamingju með hann Ágúst. Frábært að allt hans plan hafi gengið upp og hann kominn til Ungverjalands. Stórkostlegt alveg hreint. Hlakka til að lesa meira frá þér og sjá myndir það er alltaf svo gaman. Hafðu það gott mín kæra. Guðrún
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 25.8.2008 kl. 11:02
Til hamingju.
Nú vantar alvöru bútasaumsteppi á rúmið og art quilt á vegginn.
Þú getur fengið soninn til að senda þér ungverskt blue print efni. .)
Heidi Strand, 25.8.2008 kl. 22:22
já kaninn er mikið fyrir sótthreinsisprey, það á að leysa allt... Eins á spítalanum þar sem ég var var hreinlæti mjög ábótavant, ræstingarfólkið virtist bara losa ruslatunnur en ekki þurrka af. Við áttum að sá um það sjálf á skrifstofunum...
SM, 28.8.2008 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.