Fyrstu dagarnir

Það eru fleiri stórtíðindi frá fjölskyldunni. Frumburðurinn, Ágúst, flutti á þriðjudaginn til Ungverjalands þar sem hann hefur nám í læknifræði við háskólann í Debrecen ásamt Ólínu, unnustu sinni. Yngri sonurinn, Elías, byrjaði í Verslunarskólanum á þriðjudaginn. Með frúna farna í framhaldsnám er eiginmaðurinn, elskan mín hann Snorri, miðpunkturinn sem eftir stendur og heldur í alla þessa spotta. Það er svo mikil gleði að sjá alla þessa drauma rætast.

Nú er skólinn kominn í gang og í tvo heila daga hef ég setið á kynningarnámskeiði fyrir erlenda nýnema. Síðdegis og fram á kvöld var þriggja tíma fundur með kvöldverði fyrir alla nýnema til að leggja niður línurnar um formsatriði við einstaklingsbundið skipulag náms. Á morgun verður svo heilsdagsprógram fyrir alla nýnema sem í senn í samhristingur og undirbúningur fyrir dvölina í skólanum og í Wesley samfélaginu eða fjölskyldunni eins og það er gjarnan kallað.

Ég er ekki ein um að vera búin að fá alveg nóg, hvað þá að eiga annað eins eftir og kennslan ekki einu sinni byrjuð. Við útlendingarnir voru frædd um að hugsanlega kæmi við að þeim punkti að við fengjum nóg af þessu öllu alveg upp í kok. Það er partur af ferli menningaráfallsins sem við má búast. Þegar líða tók á þennan dag númer tvö var ég á köflum farin að halda að ég hefði hlaupið yfir hveitibrauðsdagana og ráðvilluna og þess í stað dottið niður á sprungubotninn eða "rock bottom" eins og stendur á teikningunni.

Þó er ég sennilega betur sett en allir hinir í útlendingahersveitinni eins og ég kalla okkur. Þau áttu öll eftir að skrá sig á námskeið, virkja netföngin sín og yfirhöfuð að lesa sér til um formsatriði og aðgerðaleiðir við stofnunina. Flest komu í fyrradag, einn beint á námskeiðið af flugvellinum eftir 20 tíma ferðalag frá Kóreu ásamt eiginkonu og tveimur börnum og hafði hann ekki sofið í tvo sólarhringa. Þetta var bagalegt fyrir þau því námskeiðið byrjaði á þriggja og hálfs tíma enskuprófi. Ég var þó búin að vera hér í viku og koma mér fyrir að miklu leyti. Reyndar voru þau flest dregin á vegabréfsárituninni fram á síðustu stundu og hafa kóreanskir nemendur við skólann, sem eru all nokkrir, ekki átt í svona miklu basli hingað til. Fleiri nemar frá öðrum löndum sem voru að koma aftur eftir frí hafa lent í meira stappi en nokkru sinni áður og var einni frá San Salvador var alfarið neitað um að koma aftur inn í landið og það án nokkurrar skýringar. Er þetta þó hennar þriðja og síðasta ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband