Verðandi Weslingur

Wesley Theological SeminaryFramundan er strandhögg vestanhafs, í Leifslandi Eiríkssonar, þar sem ég mun leggja stund á meistaranám í guðfræði næstu tvö árin. Skólinn er Wesley Theological Seminary og er staðsettur í Washington DC. Brottför er eftir  tvær vikur. Fjölskyldan verður heima enda með nóg af spennandi viðfangsefnum á sinni könnu. Þó fæ ég fylgd út, tvo fíleflda pikkalóa sem ætla að bera fyrir mig töskurnar, eiginmaðurinn og unglingurinn, sem fá viku skoðunarferð um lendur Vesturheims meðfram Potomac ánni. Annállinn minn fær af þessum sökum titil við hæfi, Fljóðið við fljótið, enda til hans stofnað að víðfrægja dáðir mínar, dútl og útúrdúra.

Wesley Theologial Seminary er af meiði meþódista og er stór á heimsvísu, alls 1.500 manns sem sækja námskeið. Helmingurinn er í námi til prófgráðu og hinn helmingurinn sækir ýmsar námsleiðir aðrar sem í boði eru eða koma þangað í gegnum samtök guðfræðiskóla í borginni, Washington Theological Consortium. Það sem dró mig að þessum skóla er listamiðstöð hans,  og námskeið um guðfræði og listir.

Ég mun búa á heimavistinni þar sem herbergið mitt verður ekki bara svefnstaður og lesrými heldur líka stúdíó, vinnustofa. Ég fæ lánaða saumavél hjá kunningjakonu minni úti svo ég þarf ekki að rogast með mína út eða eyða fé í nýja. Hér heima brýt ég heilann um hvaða verkfæri ég skuli taka með mér. Sumt er of dýrt til að kaupa það aftur og annað óhentugt til flutnings. Svo þarf ég að taka með mér bækur sem hafa reynst mér vel við saumaskapinn. Ætli það verði ekki aðallega fatnaður sem ég læt sitja á hakanum og kaupi mér úti það allra nauðsynlegasta enda allt svo ódýrt hjá henni Ammrikku, eða þannig. Verst þykir mér þó að skilja eftir öll efnin mín. Það er svipað og að senda listmálara út á tún og segja honum að skilja litina sína eftir heima. Það er nefnilega engin lausn að kaupa bara ný efni. Þetta er reyndar frábær afsökun til að kaupa efni en oft vinnur maður úr þvi sem fyrir er og kaupir ekki inn í nema það eigi erindi þangað. Kannski er ég orðin svona öguð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Halló Ólöf

Gaman að heyra þetta. 'Eg bý rétt fyrir utan Washington D.C svo það væri nú ansi gaman að fá að sjá þig. Hvað stendur námskeiðið lengi?. Þú getur sent mér email (er í höfundar upplýsingunum) og ég get sent þér símanúmerið mitt til baka. Það er margt skemmtilegt að sjá á þessu svæði fyrir mannin þinn og son bæði í Washingto og Virginíu. Stórir og miklir hellar í VA já og ekki má gleyma sædýrasafninu í Baltimore. 'Eg er bara svo spæld út í Iceland air að hætta flugi til Baltimore.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 28.7.2008 kl. 10:53

2 Smámynd: Heidi Strand

Ég verð að hitta þíg áður en þú fer vestur um haf.

Heidi Strand, 29.7.2008 kl. 14:25

3 identicon

Vonandi hættir þú ekkert að blogga, þú er greinilega dugnaðarkona! Gangi þér vel með þetta allt saman!

Maddý (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 21:16

4 identicon

Þetta með efnin og bækurnar minnir mig á flutning minn frá Strassborg til Fáskrúðsfjarðar. Ég gat ekki hugsað mér að hefja prestskap án fræðibókanna og búslóðin átti að fylgja tveimur mánuðum á eftir mér. Góð ráð dýr því bækurnar vógu 70 kg. Í þá daga var ódýrast að senda þetta í póstpokavís, sem ég og gerði - fjórir fullir póstpokar af bókum voru sóttir af nývígðum prestinum á pósthúsið á Fáskrúðsfirði.

"Hva, notarðu póstinn til að flytja búslóðina?" spurði bréfberi þorpsins og móðir fermingarbarns stríðin, þegar hún sá mig bera pokana í bílinn. Mér vafðist tunga um tönn en oft gátum við hlegið að þessu. Seinna urðu þessir pokar ágætir dúnpokar, en það er önnur saga.

Kannski geturðu sent þér efnin með sjóflutningi eða svipuðum hætti - og svo aftur þegar þú flytur heim að námi loknu. Hafðu alla vega góða för vestur og geymi þig Guð á öllum vegum þínum.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 04:58

5 Smámynd: Laufey B Waage

Ja þú segir aldeilis fréttir. Vona að þú hafir virkilegt gagn og gaman af dvölinni þar ytra. Góða ferð.

Laufey B Waage, 5.8.2008 kl. 09:43

6 identicon

Heil og sæl mágkona!

 Mig langar mikið til að hitta þig áður en þú ferð. Og by the way ég myndi skilja efnin eftir. Þú ert að hefja nýjan kafla í lífi þínu og honum munu fylgja breytingar sem liggja nú þegar í efnisströngum bútasaumsverslana D.C. og nágrennis. Njóttu þess. Ekki burðast með eitthvað gamalt á milli landa.

Hlakka til að heyra frá þér.

Með kærri kveðju,

Guðrún

Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband