Ég á afmæli í dag

Ólöf Ingibjörg DavíðsdóttirWhistling  Ég á afmæli í dag Whistling

Í gærkvöldi fann ég tvö sendibréf sem rituð voru í kringum 5 ára afmælið mitt. Annað skrifaði móðir mín og hitt móðurafi. Bæði voru send til afasystur minnar í móðurætt sem fluttist til Englands eftir seinna stríð og gekk í hjónaband.

Mamma skrifar þann 22. júlí 1967:
"Hún var búin að gera sér svo miklar vonir þegar hún yrði 5 ára, til dæmis að hún mundi ná upp á takka sjö í lyftunni. Svo var hún 5 ára í gær og ætlaði að sýna mér að nú næði hún upp á takkann. Þá var eins og maður hefði rifið úr henni hjartað þegar hún sá að hún náði ekki. Hún sagði að sennilega ætti hún ekki afmæli núna og að það væri kannski ekki sumar núna."

Ég man eftir þessu lyftuóbermi. Ég náði heldur ekki upp á rétta takkann á dyrasímanum í anddyrinu svo ég komst heldur ekki inn. En ég náði á bjölluna hjá húsverðinu. Það var pínlegt að hringja á bjöllunni hjá honum og biðja hann að ýta á lyftutakkann svo ég kæmist heim til mín.

Bréf mömmu sýnir að ég hafði stór plön fyrir þetta fimm ára afmæli og lyftubömmerinn hefur sett allt úr skorðum. Mamma skrifar áfram:
"Hann pabbi var að stríða henni Ólöfu í gær og sagði við hana að nú yrði hún að hætta með snuddu og fleira eins og hún væri búin að segja sjálf þegar þegar hún yrði 5 ára. En hún var ekki lengi að svara honum því hún næði bara upp á fyrsta takkann svo að þetta er allt í lagi lengur."

Það er engin furða að ég hugði á mikla landvinninga 5 ára enda farin að sendast ein í búðir og fara sjálf á róló upp á hvern dag með þriggja ára bróður minn í eftirdragi án fylgdar samkvæmt lýsingum afa míns þann 15. júní 1967. Afi skrifar líka:
"Hún sagði við mig einn daginn, "Þú verður að skrifa henni frænku minni og segja henni hvað ég er dugleg að sendast", svo það er eins gott að fyrir þig að minnast á það í næsta bréfi."

Ingibjörg Gísladóttir og Cyril Porter, 1947Ég man vel eftir bréfunum frá henni frænku minni, Ingibjörgu Stefaníu Gísladóttur Porter. Eiginmaður hennar var Cyril Porter. Bréfin voru lesin upphátt þegar þau komu og ég hlustaði andaktug á frásagnir af sumarleyfum í Portúgal, dansleikjum og gestakomum ytra. Frænka kom einu sinni í heimsókn til Íslands eftir að hún flutti út. Mér fannst þessi kona líkust gyðju þar sem hún sat með sígarettuna í löngu munnstykkinu á milli fingranna. Þegar ég yrði stór ætlaði ég að reykja sígarettur úr svona löngu munnstykki. Já, eitt af framtíðarplönum mínum var að reykja. En sú varð ekki raunin og ég giftist heldur ekki stráknum sem ég var skotin í þegar ég var tveggja ára.

Frænka mín gaf mér brúðarkjólinn sinn þegar ég giftist árið 1982. Það var yndislegt að fá að nota kjólinn og hún var svo ánægð með að hann væri notaður aftur. Þessi kjóll er nú orðinn 60 ára og sjálfri þætti mér mjög gaman ef tengdadætur mínar gætu notað hann. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Til hamingju með5 ára afmælið þótt seint sé.  En nærðu í dag á alla lyftutakkana?

Jakob Falur Kristinsson, 21.7.2008 kl. 10:48

2 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Innilega til hamingju með afmælin, öll. Það er alltaf svo gaman að eiga afmæli og geta haft tilefni til að hóa fólki saman. Frásögin er virkilega skemmtileg. Takk.

Marta Gunnarsdóttir, 21.7.2008 kl. 12:05

3 Smámynd: Laufey B Waage

Til hamingju með afmælið .

Laufey B Waage, 21.7.2008 kl. 15:00

4 Smámynd: Heidi Strand

Til hamingju. Þú ert mjög lík þér.
Gaman var að lesa þessa færslu. Svona bréf er algjör fjársjóður.

Heidi Strand, 22.7.2008 kl. 21:24

5 Smámynd: SM

Til hamingju með daginn! þó seint sé. Skemtileg frásögn og flott brúðarmynd.

SM, 23.7.2008 kl. 02:05

6 Smámynd: SM

og ekki síst myndin af þér 5 ára

SM, 23.7.2008 kl. 02:06

7 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Til hamingju með afmælið. Þetta er skemmtileg frásögn lítillar stúlku sem sá stóra hluti gerast við 5 ára aldurinn. Stórhuga stúlka! Megi Guð og gæfan vaka yfir hverju spori þínu um ókomna tíð.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.7.2008 kl. 12:53

8 identicon

Þrem dögum of sein...en samt óska ég þér til hamingju með afmælið.  Þú spurðir um kirkjuna mína, það er Fella- og Hólakirkja, súperfín kirkja, mikið og gott starf sem fer fram þar.

Sumarkveðja

Þórey Dögg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 22:07

9 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég þakka fyrir hlýjar kveðjur og árnaðaróskir. Það fer að koma tími á nýja færslu.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 26.7.2008 kl. 19:26

10 identicon

Gaman að lesa þetta bréf og til hamingju með afmælið.  Myndirnar eru yndislegar!

Knús til þín og sumarkveðja ...

Maddý (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband