Múffu munaður

muffins 1Þessar múffur bakaði unglingurinn um helgina. Tilgangurinn var að fínpússa uppskriftina sem við höfum verið að aðlaga kenjum okkar um hríð. Það hefur verið vandamál að uppskriftir fyrir múffur hafa gefið af sér þurrar, lágreistar kökur. Skúffukakan okkar er rök, mjúk og loftmikil. Okkur fannst sú uppskrift því efnileg til múffugerðar en hún hefur reynst of mjúk. Kökurnar hafa rifnað í sundur þegar þær voru  teknar úr forminu nema sett væru pappírsform innan í. Ef settir voru súkkulaðibitar ofan á sukku þeir til botns við bakstur og varð allt súkkulaðið eftir inni í pappírsforminu þegar múffurnar voru teknar úr því til átu. Það var sem sagt ekki eitt sem var að heldur allt.

En nú virðist þetta var komið. Allir sáttir og kökurnar til friðs. Þá er hægt að fara að leika sér með uppskriftina. Þessi uppskrift hefur komið betur út úr matvinnsluvél en hrærivél eða handþeytara. Sé slík vél ekki fyrir hendi mæli ég með að aðferðinni sé samt beitt í hinum tækjunum en ekki upp á gamla mátann þar sem tíðkast að hræra fyrst saman smjör og sykur, bæta í eggjum og loka þurrefnum á víxl við vökva. Í matvinnsluvél á að blanda öllum þurrefnum saman. Vélin er stöðvuð og smjörlíkinu í bitum er dreift yfir og svo hakkað saman við á mesta hraða í fína mylsnu. Vélin stöðvuð. Út í er sett egg og súrmjólk, vélin sett í gang á lágum hraða og blandað augnablik, hraðinn aukinn vel stutta stund á meðan allt samlagast. Ekki má hræra lengi. Áferðin á að vera svolítið kornótt. Deigið sett í djúp "möffins" bökunarmót, söxuðu súkkulaði stráð yfir. Bakað við 175°C í 15 mínútur. Kökurnar látnar kólna alveg í mótinu áður en þær eru teknar úr. Það borgar sig að renna hnífsblaði meðfram þeim áður en þær eru losaðar úr. Sjálf nota ég kökumót úr sílikoni og smyr þau örþunnt áður.

Súkkulaðimúffur: 

2 bollar hveiti
1 1/2 bolli sykur
1/3 bolli kakó
1/2 tsk matarsódi
2 tsk lyftiduft
2 tsk vanillusykur
100 gr smjörlíki
1 egg
1 bolli súrmjólk
50 gr suðusúkkulaði

Skipta má út fjórðungi súrmjólkurinnar fyrir vel sterkt, kalt kaffi. Þá er líka prýðisgott að skipta út helmingnum af sykrinum fyrir púðursykur. Ef púðursykur er notaður má prófa að sleppa kakóinu og súkkulaðinu. Slíkar múffur heita hér "Púðurkellingar".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey B Waage

Verði ykkur að góðu .

Sjálf hef ég í seinni tíð aðallega verið að þróa hveiti- og sykurlausar kökuuppskriftir. Með ásættanlegum árangri fyrir minn smekk. 

Laufey B Waage, 10.7.2008 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband