Ekki af þessum heimi

Foreldrar mínir fundu mig alveg örugglega í körfu úr framandi efni á dyraþrepinu einn morguninn. Smekkur minn á sælgæti er líklega ekki af þessum heimi því hvað eftir annað gerist það að eitthvert lostætið er tekið úr sölu eða framleiðslu af því að það eru ekki nógu margir sem vilja það. Þannig fór með Tab, vanillu-Kókið og tropical-Fanta. Þar á undan var það Spur.

Crunchie frá CadburyÁ unglingsárunum féll ég fyrir Crunchie frá Cadbury. Framleiðsla þess hófst árið 1929. Það fékkst hér í nokkur ár og svo var það búið. Fyrir 13 árum seldi hverfissjoppan úr einum kassa. Mér fannst ég endurborin. Svo var það búið.  Ég átti alvarlegt erindi til Bretlands fyrir tveim árum og tók með mér heim 6 slík súkkulaðistykki. Þetta nammi treindi ég mér í hálft ár. Geri aðrir betur. Ég var spurð af hverju í ósköpunum ég hefði ekki keypt mér meiri birgðir. Það fannst mér óþarfi vegna þess að 60 stykki bragðast ekkert betur en 6 og ef ég ætti meira en nóg þætti mér ekkert varið í að eiga það ofan í skúffu. Ég lýsi því yfir að vilji einhver eiga ævarandi vináttu mína þarf ekki meira til en færa mér eins og tvö Crunchie úr hverri Bretlandsferð.

Nú ætlar Nói að hætta að malla handa mér fíkjustöngina af því að ég kaupi ekki nógu mikið af henni. Því miður get ég ekki með nokkru móti staðið undir landsframleiðslunni. Það sem gerir fíkjustöngina góða er númer eitt hvað hún er smá. Það vantar lítil súkkulaðistykki í hillurnar. Allt er á leið í yfirstærð. Síðast varð Nizza fyrir barðinu á skemmdarvörgunum. Molarnir eru of stórir til að liggja vel í munni. Ef Síríuslengjan verður stækkuð er mér að mæta.


mbl.is Nói hættur með Fíkjustöngina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Það er ljóst að við förum hönd í hönd og kaupum in góðgæti, Ólöf.  Spur, Cherry-Cola, Tab, Tropical-Fanta - maður horfir eftir þessum nautnadrykkjum með mikilli eftirsjá. Í Svíþjóð er enn hægt að kaupa dr. Pepper. Það er einn af þessum útvöldu spillingardrykkjum. Maður finnur hvernig það rennur ljúflega niður og beint á magann. :)  Þetta er jú bara sykurleðja, en gott er það.

Mér er líka að mæta ef þeir breyta formatinu af Síríus-lengjunni

Baldur Gautur Baldursson, 16.5.2008 kl. 06:04

2 Smámynd: Laufey B Waage

Það er greinilegt að þú ert ekki fíkill eins og ég. 6 lítil súkkulaðistykki á 6 mánuðum. Hvernig er þetta hægt? Nói og aðrir framleiðendur eru ekki ennþá hættir að framleiða uppáhalds súkkulöðin mín (þó ég hafi hætt í sukkinu fyrir 16 mánuðum), því ég keypti alltaf svo rosalega mikið.

Laufey B Waage, 17.5.2008 kl. 17:43

3 Smámynd: Heidi Strand

Cherry Cola mmmmmmmmmmmmmmmmmm Ég sakna líka kirsuberjadjús. Hér er mest úrval af epla- og appelsínudjús og er hvorugt gott fyrir gigtarsjúklinga.

Heidi Strand, 18.5.2008 kl. 17:52

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Fíkill og nautnaseggur er ekki sami hlutur.  Ég er enginn fíkill bara forfallinn nautnaseggur. Held að Ólöf katergóríserist undir sama  :)

Baldur Gautur Baldursson, 20.5.2008 kl. 06:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband