Grunnbrauð

GrunnbrauðBrauðið stökk úr ofninum í myndatöku. Örlög þess munu þó verða meira í ætt við stökkið úr öskunni í eldinn því það verður með kvöldmatnum. Ég kalla þetta "grunnbrauð" því uppskriftin í bókinni hefur mátt þola mikið tog og teygingar hjá mér í gegnum árin. Í henni er rúgmjöl sem ég á yfirleitt ekki vegna þess að mér finnst það ekki sérlega gott og því rennur það alltaf út á tíma og gott betur. Ég hef einu sinni náð að koma mér upp iðandi dýragarði í stampinum og er því mjög kresin á dagstimpla rúgmjölspoka.

Uppskriftin er hér neðar. Ég tek það fram að það er nauðsynlegt að halda eftir allt að tveimur desilítrum af hveitinu við blöndun því magn þess er undir því komið hvaða annað mjöl er notað með. Í þessu tilviki notaði ég sigtimjöl sem er blanda að hveiti og rúgi án hýðis. Sennilega má alveg sleppa einum dl af hveitinu.

Nýgræðinga vil ég lóðsa yfir á fyrri færslu mína um leyndardóma gerbaksturs til að kynnast krókum og kimum þessara eldhústöfra.

Grunnbrauð:

50 gr þurrger
1/2 msk salt
1/2 msk sykur
3 dl rúgmjöl
6,5 til 7 dl hveiti
2 msk olía
1 dl heitt vatn
2,5 dl undanrenna/mjólk

Þurrefnum blandað saman að undanskildum 2 dl af hveiti sem bætt er í eftir þörfum við hnoðun. Heitu vatni hellt saman við mjólkina til að velgja hana. Vökvanum og olíu hellt yfir mjölblönduna. Hrært saman. Hnoðað og þá er bætt í því sem þarf af hveitinu sem eftir er.
Látið lyfta sér í skál undir klút í 40 mínútur. Hnoðað aftur og sett í smurt form. Ofninn hitaður í 200°C á meðan deigið lyftir sér. Penslað yfir það með volgri mjólk. Bakað í 25-35 mínútur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Það verður spennandi að prófa þetta brauð. Það lítur einstaklega girnilega út. Þú ert greinilega alger meistari í brauðbakstri. Glæsilegt!

Sigurlaug B. Gröndal, 6.4.2008 kl. 23:08

2 Smámynd: SM

Olof eg skal segja ther thad ad thetta braud, eda myndin af thvi, hefur ollid thvi ad eg hef radad i mig fransbraudi sidustu daga... thetta er bara of ljuffeng mynd af braudi...

SM, 10.4.2008 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband