16.3.2008 | 20:37
Einni gráðu ofar
Þegar farið er að lýsa eftir manni í gestabók er tímabært að ræskja sig og hefja upp bloggraust.
Yðar einlæg útskrifaðist fá Háskóla Íslands með B.A. gráðu í guðfræði þann 23. febrúar sl. Af því tilefni bauð ég fjölskyldunni út að borða í Perlunni þar sem við snæddum af fjögurra rétta matseðli úr smiðju þriggja stjörnu Michelin kokks frá Þýskalandi. Þeir gerast víst ekki flottari. Við höfðum vissar efasemdir um að hann réði skammlaust við íslenska lambakjötið. En kjötið reyndist hreinasta afbragð svo við fórum heim södd og sæl.
Í febrúar og mars hef ég verið í vettvangshluta starfsþjálfunar, m.a. á Akureyri. Ég átti að halda vinnudagbók þennan tíma og því hefur lítið annað komist á blað, hvað þá heldur blogg, enda meir en nóg að skrifa um í skýrslurnar. En nú sér fyrir endann á þeim kafla. Svo vantar mig vinnu í nokkra mánuði.
Athugasemdir
Til hamingju með áfangann, Ólöf.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 10:42
Innilegar hamingjuóskir! Smá forvitni - er stefnt á framhaldsnám?
Ninna Sif (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 17:33
Takk, bæði tvö. Jú, framhaldsnám er í farvatninu. Ég geri ráð fyrir að framvindan rati hingað inn er á líður.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 18.3.2008 kl. 18:59
Til hamingju!
Getur þú þá tekið prestvígslu eða þarf þú að taka eitthvað meira?
Perlan er frábær veitingastaður.
Heidi Strand, 19.3.2008 kl. 12:33
Til hamingju!
SM, 19.3.2008 kl. 22:03
Innilega til hamingju með áfangann. Gangi þér allt í haginn. Ætlarðu að taka embættisprófið? Kær kveðja úr Þorlákshöfninni.
Sigurlaug B. Gröndal, 20.3.2008 kl. 11:14
Heidi: Nei, ég verð ekki prestur með þetta nám en ég get orðið djákni.
Sigurlaug: Ég var ekki í embættisnáminu svonefnda og stefni ekki að cand.theol-gráðu heldur meistaragráðu í guðfræði.
Reyndar var mitt mitt nám embættisnám líka en til annars embættis, djáknaembættis. Ég er á því að það eigi að leggja þetta orð, "embættisnám", niður. Námið eitt og sér veitir ekki embættisgengi, hvorki til prests eða djákna, því auk þess þarf að taka starfsþjálfun á vegum biskupsstofu vilji fólk sækjast eftir embætti. Að því loknu er gefið út vottorð um embættisgengi. En enginn verður óbarinn biskup (prestur eða djákni) því það getur verið þrautin þyngri að fá embætti og fyrr getur enginn vígst. Fyrir suma er það nánast þrautaganga og mörg "kjaftshöggin" á leiðinni.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 20.3.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.