Íhugun

ÍhugunNú stendur yfir djúp efnisleg íhugun á þessum bæ. Þessi marmaralituðu bómullarefni hafa lengi beðið köllunar sinnar ofan í skúffu. Ég hef oft dregið þau fram, strokið og umbrotið, í þeirri von að finna hvert þau stefna. En þau hafa reynst jafn óráðin og ég sjálf. Þessar lífrænu línur biðja um mjúka og flæðandi uppsetningu. Ætli næsta skrefið verði ekki að handþvo þau og sjá hverju fram vindur þegar ég kreisti úr þeim vatnið og virði fyrir mér ólögulega hrúguna.

Það hefur alltaf verið mér torskilið hvernig fólk fer að því að fullmóta hugmynd, gera skissu og svo snið eða uppdrátt sem unnið er eftir. Mér hefur eiginlega fundist eitthvað vanta í mig því ég byrja yfirleitt með hálfkaraða grunnhugmynd og svo prófa ég mig áfram með hvað virkar fyrir hana.

Trust the processEn mín aðferð er víst líka fullgilt vinnulag og ekki síður árangursríkt að mati Shaun McNiff, listmeðferðarfræðings, sem skrifaði bókina, "Trust the process - an artist's guide to letting go". Höfundur fullyrðir að í listsköpun séu að verki vitsmunir sem beri uppi alla skapandi vinnu. Þetta afl getur leitt okkur í gegnum vandræði og jafnvel hagnýtt mistök okkar svo fremi að við treystum náttúrulegu ferli vinnunnar. Hið athyglisverða er að egoið getur ekki stjórnað þeim töfrum sem þarna eru að verki. Flæðið skilar okkur þangað sem við þurfum að vera en vissum ekki áður.

Ég held því áfram að vinna við mína flæðilínu. Á meðan ég les bókina velti ég því fyrir mér í aðra röndina hvernig slíkar hugmyndir mætti heimfæra í atvinnulífinu, við náttúruvernd og borgarskipulag. Maður náttúrulega púslar ekki til og frá með aldagömul hús á Laugavegi, Sundagöng og mislæg gatnamót, skólakerfi, hlutabréfakaup og borgarstjórn þegar á hólminn er komið. En ég velti fyrir mér hvað mundi verða ef það væri lagður tími og vinna í að fara um lendur ímyndunaraflsins til að uppgötva möguleika og prófa þá með því að rekja þá áfram á teikniborði hugans. Sumt hefur reynslan kennt að virkar og virkar ekki. En McNiff leggur áherslu á þrotlausa vinnu vísindamanna til að komast að því af hverju eitthvað virkar ekki.

Blómstrandi vetrarblámiSlík vinna fæðir af sér nýjar hugmyndir sem virka, hugmyndir um hluti sem við vissum ekki einu sinni af eða að gætu orðið til. Það er nýsköpun. Hér til hliðar ef mynd blóminu á eldhúsborðinu hjá mér sem hefur annan lit en blóm þessarar tegundar því einhverjum datt í hug að láta blómið sjálft drekka í sig annan lit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ólöf....sakna þess að sjá þig ekki í skólanum...vona að allt gangi vel hjá þér...já og til hamingju með að hafa lokið þessum áfanga í lífinu.

Þórey Dögg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband