27.1.2008 | 13:32
Bútasaumur er snilld en ekki skammaryrði
Ef borgarskipulagið væri sannarlega unnið eins og bútasaumur væri margt á betri veg. Það er algjör misskilningur hjá menntamálaráðherra að bútasaumsaðferðir séu meinsemd í borginni. Bútasaumur byggir þvert á móti á heildarsýn samhengis, verkkunnáttu, útsjónarsemi, frumleika og nýsköpun sem nærist á lifandi hefð. Hér með býð ég menntamálaráðherra og hverjum þeim borgarfulltrúa sem vill einkakennslu í bútasaumi, í fullri alvöru.
Tilefnið er þessi orð menntamálaráðherra í fréttum RUV: "Ráðherra vill ekki bútasaumsaðferðir: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, gagnrýnir vinnubrögð Húsafriðunarnefndar og Reykjavíkurborgar við verndun húsanna við Laugaveg 4 og 6. Ráðherra kallar eftir aukinni samvinnu og að látið verði af bútasaumsaðferðum, en að þess í stað verði mótuð heildstæð stefna um varðveislu og uppbyggingu Laugavegarins."
Til hliðar er mynd af veggteppi sem ég gerði, innblásið af litadýrð ljósmynda frá Landmannalaugum. Þangað hafði ég aldrei komið þegar ég vann verkið en dreif mig í dagsferð í kjölfarið. Síðan hef ég safnað efnum í annað veggteppi með grágrænum litum Bláhnúks og bleikum litum líparíts.
Bútasaumur sameinar viðfangsefni margra fræðigreina: verkfræði, stærðfræði, formfræði, vélfræði, myndbygging, litafræði, efnisfræði, smíðar, fjármál, viðskipta- og markaðsfræði, verkefnastjórnun, bókmenntir, sálarfræði, hönnun, teikning, sniðagerð, saumaskapur, innanhússarkitektúr, endurvinnsla, umhverfisvernd, handverkskunnátta, ljósmyndun... Æ, ég þarf að koma mér að efninu.
Eitt bútasaumsteppi er eins og rekstur stórfyrirtækis á míkroskala.
Athugasemdir
Já þetta er rétt athugað hjá þér. Við höfum greinilega hingað til lagt ranga merkingu í hugtakið bútasaumsskipulag. Tölum gjarnan um búatasaumsskipulag í Laugardalnum okkar og erum þá að tala um vanhugsað skipulag eða skipulagsleysi. í raun ættum við að kalla eftir bútasaumsskipulagi því rétta merkingin er fullkominn samhljómur .
Guttormur, 28.1.2008 kl. 22:56
Ég er þér svo innilega sammálla. Svo er eitt einn sem tengist bútasaumur og það er nýtni. Hægt er að nota efnisafganga og notaðan fatnað til sköpunar.
Ég er of óskipulögð fyrir bútasauminn.
Heidi Strand, 29.1.2008 kl. 20:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.