Buxur, vesti, brók og skór

DúkkulísaDúkkulísur voru í miklu uppáhaldi hjá mér í æsku. Ég átti virkilega flottar dúkkulísur. Eitt settið hafði mynd bæði á framhlið og bakhlið og svo var lísan með "alvöru" hár. Svo átti ég sett með frægum kvikmyndastjörnum fornaldar í Suðurríkjarjómatertukjólum í anda Scarlett O'Hara. Ég átti Addams fjölskylduna í dúkkulísum. Á tímabili voru dúkkulísur á haframjölspökkum sem innfluttir voru frá Danmörku og rak ég mjög á eftir fólki með að klára úr þessum pökkum svo hægt væri að kaupa nýja. Ég hins vegar borðaði ekki haframjöl.

Við stelpurnar lékum okkur daginn út og daginn inn með þetta ráðstjórnarríki okkar og teiknuðum líka sjálfar föt á dúkkulísurnar. Dótið fór að lokum veg allrar veraldar, eins og ráðstjórnarríkin. Ef einhver fær fortíðarkláða má smella hér og þá opnast vefsíða með gagnvirkum dúkkulísum sem hægt er að klæða á skjánum.

Mér varð hugsað til þessa bernskuleiks þegar ég fór í fataskoðun á höfuðborgarsvæðinu í dag. Útsölurnar eru svona á síðasta snúningi en ég ætlaði að athuga hvort ég sæi eitthvað sem mér hugnast að klæðast við útskriftina í febrúar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki gaman að kaupa föt. Mér finnst gaman að eignast ný föt en að finna það sem mig langar að vera í er allt annar handleggur. Þegar ég er loksins komin kófsveitt með nokkrar flíkur inn í mátunarklefann er ég eiginlega ekki lengur í stuði, allra síst til að hátta mig. Mátunarklefar eru bara flestir óhentugir. Það vantar snaga, það vanta stól og það vantar hillu fyrir töskuna mína. Svo þegar ég er loksins komin í eitthvað stendur hárið á mér rafmagnað út í loftið, buxnaskálmarnar svo alltof langar að þær liggja inn í næsta mátunarklefa og ermarnar svo síðar að það væri hægt að hnýta þær aftur fyrir bak í spennutreyjustíl. Ég hef sjaldnast þol til að máta meira en tvo umganga í sömu ferðinni. Ný föt eignast ég því ekki oft.

Útsölur eru sérkapítuli út af fyrir sig. Ég hef ekki taugar í meiri upprifjun í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SM

einhversstaðar í Ameríku á að vera hægt að ´máta´með aðstoð tölvu, einsog dúkkulísa... En er sammála, það að máta föt er full vinna.

SM, 18.1.2008 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband