Konan sem kyndir ofninn sinn

VinnuborðGærdagurinn hófst í hyllingum góðra fyrirheita. Ég lagðist svo á árar til að sækja á miðin. Fyrsta bráðin var vinnuborðið undir uppsöfnuðum vanda. Það er nú ekki djúpt á því, aðallega að þar bíði hlutir sem hafa ekki eignast samastað. Nú er ég komin niður á verkið sem ég byrjaði á sl. sumar en lagðist svo í dvala þegar saumakonunni varð fyrirmunað að sitja á rassinum. Gólfið er nú autt, áltrappan er orðin að stofustássi og saumavélin hefur endurheimt sinn réttmæta sess á skrifborðinu.

Svona rétt til að rifja upp handtökin gerði ég við rifna skálm á uppáhaldsbuxum unglingsins og fann að ég hef engu gleymt. Húsbandið sagði bara Vá! þar sem hann stóð í dyrunum þegar hann kom heim.  Eða sá hann kannski vá fyrir dyrum? Að það rynni saumaæði á konuna? Alla vega yrði þungum áhyggjum af unglingnum létt ef ég sæti við saumavélina því mér varð það á að sitja við tölvuinnslátt þegar hann kom heim úr skólanum og sagði með þeirri vanþóknun sem unglingum einum er lagin: "Þú ert þó ekki farin að læra aftur?"

Það var ætlunin að taka í dag upp þráðinn þar sem frá var horfið í gær en það fór fyrir lítið í fjölbreyttu snatti. Ég fór á kynningarfund um hugbúnað snemma í morgun og á leiðinni hlustaði ég á einstaklega áhugavert viðtal við Kristínu Gunnlaugsdóttur sem er nýkjörin bæjarlistakona Seltjarnarness. Ég trúði henni alveg þegar hún talaði um glamúrleysi listamannslífsins.

Svo kom klukkutíma gat sem fór í bensínkaup, bílastæðisleit og göngu á fund í klukkutíma. Þá kom hálftímagat á næsta stefnumót sem fór út um þúfur, svo klukkutíma bið eftir næsta erindi. Loks komst ég heim á leið, keypti fisk í matinn og kippti rennblautri gólfmottunni úr bílnum með mér inn. Ég man ekki einu sinni hvort ég hafði fyrir því að fara úr skónum áður en ég kveikti á katlinum. Mmm... heitt te og heimabökuð marmarakaka síðan í gær - best daginn eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband