31.12.2007 | 15:48
Ég er púðurkelling
Það verður lítið um sprengingar á þessu heimili um áramótin. Það er þó ekki veðrið sem setur strik í reikninginn heldur breyttur smekkur forráðamanns fjölskyldunnar (þ.e. unglingsins). Feðgarnir fóru í fyrra í hin árlegu stórinnkaup og þegar heim kom sagði hinn upprennandi unglingur mér að það hefði runnið upp fyrir sér er hann settist inn í bíl með pokana að hann hefði ekkert gaman af flugeldum. Móðurhjarta mínu létti stórum því ég áttaði mig samstundis á því að stórlega drægi úr líkum á flugeldaáverkum með tilheyrandi örkumlum yfirvofandi.
Nú um jólin tilkynnti hann svo að þetta árið vildi hann ekkert púður. Við foreldrarnir mættum kaupa okkur eitthvað smávegis en við skyldum ekki halda að hann kveikti í því fyrir okkur, við yrðum að bjarga okkur sjálf. Ég kímdi nú því það hefur mikið til verið á minni könnu að kveikja í herlegheitunum og egna aðra til hins saman og haft gaman af. Mér kemur ekki til hugar að kaupa flugelda. Eldri sonurinn hefur verið á kafi í sölumennsku árum saman með björgunarsveitinni og varið gríðarlegum fjármunum í skotfærin. Bróðir minn hefur verið undir sömu sökina seldur og fært heim lifandis býsn af bombum. Ég hef því mátt hafa mig alla við í gegnum árin en það hefur varla séð högg á vatni á nýársdag.
Í fyrra sáum við fram á að verða að sjá um þetta sjálf vegna fjarveru hinna og vorum bara mjög hófsöm þrátt fyrir mikinn þrýsting frá náskyldum sölumönnum. Samt kvörtuðu nágrannar okkar undan því að við vektum börnin þeirra með restinni eftir kvöldmat á þrettándann. Til að ganga ekki fram af unglingnum né nágrönnunum eru birgðirnar í ár aðeins þetta: ein raketta, ein smáterta, tvö gos, tvö bengalblys, tvö kúlublys, þrír pakkar af stjörnuljósum og öryggisgleraugu.
Munið eftir öryggisgleraugunum!
Athugasemdir
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla!
SM, 2.1.2008 kl. 10:21
Gleðilegt ár. Ég las þetta á gamalársdag og var svo ánægð með þig.
Þakka þér gott boð, en hér er mikið af púðurkörlum.
Heidi Strand, 5.1.2008 kl. 14:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.