29.11.2007 | 11:19
Endurkoma kaupmannsins á horninu
Kaupmaðurinn á horninu eiga sterkan leik á borði. Neytendur hafa fengið sig fullsadda á því að láta gera grín að sér. Var það allt og sumt sem sem nýútskrifuðu markaðsfræðingarnir að lærðu að gera í skólanum? Stóru keðjurnar misstu allan trúverðugleika þegar verðsamráð þeirra og verðhringlandaháttur fékkst loks staðfest og nú hafa þær líka misst andlitið, þ.e. fellt grímuna og sýnt sitt rétta andlit. Um leið og ég las þessa frétt vissi ég að nú yrði slegið met í bloggheimum og vil ég leggja mitt af mörkum til þess.
Nei, nú er lag - hverfisbúðir í einkaeigu einstaklinga þar sem ekki er svona vitleysa í gangi eru það sem koma skal - aftur. Í hverfisversluninni Rangá sem rekin hefur verið áratugum saman fæst allt það helsta, viðmót og þjónusta er betri en nokkurs staðar og þar leiðist engum svo að hann þurfi að biðja um sæti inni á kaffistofunni á meðan "frúin" kaupir inn. Þangað geta fastakúnnar hringt ef þeir eru rúmfastir og látið taka til fyrir sig í poka sem kaupmaðurinn hefur svo skotist með til þeirra. Þar hefur meira að segja verið pöntuð fyrir mig vara sem annars var alla jafna ekki til sölu. Slíkt mundi Hagkaup aðeins gera í draumum mínum.
Ég man eftir a.m.k. fimm nýlenduvöruverslunum við Langholtsveginn einan þegar ég var krakki auk fjölmargra annarra. Þær eru allar farnar. Nú fer ég að rifja upp hvar hinar voru og telja á fingrum mér.
Rangá er að Skipasundi 56, á horni Skipasunds og Holtavegar. Hættið við að fara í Hagkaup í Holtagörðum og farið suður Holtaveginn í staðinn. Þá akið þið fram á Rangá.
Pabbar í pössun í Hagkaupum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er sko stórfínt að versla í Rangá. Ég er alltaf jafnhissa hvað vöruúrvalið er mikið. Verðið er það sama allan daginn og alla dag enda notaðir litlir verðmiðar sem eru settir eru á þegar varan fer í hilluna. Þjónustan er líka mjög góð, allar vörur settar ofaní plastpokann fyrir kúnnan, ég held jafnvel að ekki sé sérstaklega rukkað fyrir pokana. Svo talar allt starfsfólkið íslensku og flestir komnir vel af fermingaraldri. Svo er örugglega hægt að fá sent heim.
Andrea (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 16:22
Verslunin Rangá er bara tær snilld og ótrúlega skemmtileg verslun. Þetta minnir mig á gömlu hverfisbúðina, Hlíðakjör í Eskihlíðinni þar sem ég ólst upp. Þessar búðir eru ómissandi. Það eru tvær verslanir frekar kannski í stærra lagi sem eru ekta hverfisbúðir með kjötborði og góðu afgreiðslufólki, en það eru Melabúðin og Þín verslun á Seljabraut. Þarna verslar enn fólk sem löngu er flutt úr þessum hverfum. Ég hitti fer til dæmis oft enn í Þín verslun á Seljabraut þó ég sé löngu flutt og komin út fyrir bæinn. Þar hitt ég gamla nágranna og fólk sem ég þekki í hverfinu. Alveg frábært og þær lengi lifi!
Sigurlaug B. Gröndal, 30.11.2007 kl. 11:10
Allt hið besta er að segja um Rangá. Hinsvegar er kaupmaðurinn á horninu því miður á hraðri útleið. Á dögunum lokaði Skerjaver í Skerjafirði. Ég þekki fólkið sem rak þá búð og það var því fólki þungbær ákvörðun að neyðast til að loka þessari einu verslun í Skerjafirði. Þrátt fyrir að vöruverð í Skerjaveri hafi verið lágt í samanburði við aðrar hverfisbúðir þá dró úr sölu jafnt og þétt. Skerfirðingar óku heldur á jeppanum sínum í Bónus og gerðu þar vikuleg stórinnkaup - þó þeir keyptu mjólkina áfram í Skerjaveri.
Jens Guð, 1.12.2007 kl. 22:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.