2.6.2020 | 10:04
Ljósalyng - Andromeda Polifolia
Ég fékk mér þessa plöntu, ljósalyng, í garðinn núna í maí 2020. Hana fékk ég hjá Storð. Samkvæmt upplýsingum á plöntulista garðplöntuframleiðenda þrífst ljósalyng best á skuggsælum stað í framræstum, súrum jarðvegi og þarf vetrarskýlingu fyrstu árin. Plantan er eitruð sem þarf að muna vel því hún líkist rósmarín í útliti. Hún er sígræn og blómstrar snemma vors bleikum kúlulaga blómum.
Til að byrja með ætla ég að hafa hana í gróðurkeri. Svo þarf ég að spá í það í sumar hvernig ég skýli henni í vetur. Ætli hún verði ekki tekin inn á pall undir svalirnar fyrir ofan og útbúið einhvers konar strigatjald yfir hana. Ljósalyng á að henta vel í potta því það er hægvaxta og smágert, í steinhæðir og kanta á beðum. Mér sýnist því framtíð plöntunnar vera björt í mínum garði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.