Vorblær í fataskápnum

Kjóll - snið: Onion 2035

Þessi kjóll var að koma undan saumavélinni. Nýlega gekk ég í útlenskan saumaklúbb á Facebook þar sem meðlimir sauma kjóla úr teygjanlegum efnum. Þaðan hef ég fengið mikinn innblástur, sérstaklega vegna þess að efnisval er miklu meira í ætt við minn smekk en svart-og-grátt sem ríkir ár eftir ár yfir íslenski fatatísku, vetur jafnt sem sumar.

Onion2035Sniðið er Onion 2035. Ég hef saumað annan kjól áður eftir því en hann varð allur eitthvað svo stór og teygður. Svo ég aðlagaði sniðið betur. En nú lenti ég í því að þessi nýjasti kjóll er eiginlega 5 kílóum of lítill. Eftir stutta umhugsun áttaði ég mig á því að teygjueiginleikar efnanna voru mjög ólíkir. Sá fyrri var úr viskósjersey sem er mjög teygjanlegt og þungt. Þess vegna varð hann allur svona laus á mér þó ekki væri hann of stór. Þessi nýi er úr þykkara bómullarjersey sem er áprentað og því stífara fyrir vikið. Hann gefur því minna eftir og heldur betur formi. Mér sýnist ég því þurfa snið í tveimur stærðum eftir því hvernig jersey efni ég nota.

En ég gerði fleira fyrir kjól númer tvö. Mér fannst hálsmálið of sítt og vítt svo ég grynnkaði það. Einnig var axlarsaumurinn of langur út á öxlina. Ég færði því axlirnar til, mjókkaði þær um tvo sentimetra við ermasauminn og bætti þessum tveimur sentimetrum við axlarsauminn í hálsmálinu. Ermasaumurinn situr því hærra á öxlinni og hlýrinn á brjóstahöldunum hættir að gægjast fram fyrir.

Annað gerði ég líka við sniðið. Ég gerði ráð fyrir bakfettunni svo kjólfaldurinn kippist ekki upp að aftan og kjóllinn kiprast ekki heldur í fellingar yfir mittið á bakinu. Þessi breyting fellst í því að stytta baksauminn eftir kúnstarinnar reglum og síkka faldinn að hluta. Það er ekki erfitt, maður þarf bara að kunna það.

Kjóll - snið: Onion 2035

Erma- og kjólfaldar eru stungnir með tvíburanál í venjulegri saumavél en að öðru leyti er kjóllinn saumaður saman í overlockvél. Hálsmálið er frágengið með teygjuskábandi.

Þetta er fyrst flíkin sem ég sauma úr digital áprentuðu jersey. Ég hef lært af því. Mér sýnist að mér sé óhætt að sníða slíka flík eftir réttri stærð en viskósjersey hins vegar númeri minni. Nú er bara að vinda sér í að sauma næsta kjól með þennan reynslubanka í farteskinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband