1.4.2012 | 07:39
Súr í krús á gelgjuskeiði
Það ku vera hefð fyrir því að gefa súrdeigsvakanum sínum nafn. Minn heitir Súrý, fullu nafni Súrýkrús, eftir dóttur leikarahjónanna Katie Holmes og Tom Cruise. Sú heitir Sury Cruise.
Súrý tók eitthvert gelgjukast og hafði myndað gráa, loðna mottu á yfirborðinu þegar ég tók hana út úr ísskápnum í gær til að mata hana. Ekki seinna vænna, síðasti dagur mottumars. Svo var kominn vottur af própanól lykt. Ég skóf snyrtilega af yfirborðinu, fleygði því og hélt eftir sem nam einni teskeið neðst af botninum. Setti það í hreint glas og mataði á rúgi og vatni. Lyktin var farin í morgun. Sjáum hvað Súrý gerir ef ég mata hana tvisvar á dag næstu dagana og set hana svo í ísskápinn.
Stóra málið er hvað breyttist fyrst súrinn tók stefnuna á þessa sjálfstortímingu. Um síðustu helgi færði ég krukkuna til í ísskápnum og setti hana á hlýrri stað eftir að hafa lesið um kjörhitastig súrdeigsvaka í ísskápum. Ég hafði geymt súrinn við 3-4°C en færði hann efst þar sem eru 8-9°C. Ég sá að hann þroskaðist hægar og líklega mátulega við lægra hitastigið en vildi hlusta á mér reyndara fólk. En framvegis verður Súrý sett nánast á ís, geymd í neðstu hillu ofan við ávextina sem ættu kannski frekar að fara í efstu hilluna. Ég hef aldrei mælt hitastigið í ísskápnum svo nákvæmlega en komst að því núna að mjólkin þarf að fara neðar. Hún hefur verið í næstefstu hillunni þar sem eru 7°C en ætti samkvæmt pakkningunum að geymast við allt upp að 4°C.
Þetta eru kannski algjörar ekkifréttir fyrir flesta en þetta færi ég hér til bókar fyrir sjálfa mig ef eitthvað kemur upp á aftur. Alla vega, hún Súrý mín plumar sig ekki á háu hælunum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.