Vinnuherbergið Annexía

Vinnuherbergið mitt hefur smátt og smátt tekið á sig mynd alvörunnar. Eiginlega má segja að það sé ekkert annað eftir en að geta unnið þar að gagni. En aðstaðan er öll í áttina að þeim þörfum sem ég hef til að geta notað hana, þó stutt sé hverju sinni. Stærsta áskorunin hefur verið að útbúa umhverfi til að vinna standandi auk þess að vera hagnýtt og gott í umgengni, innréttað af hófsemi og hagsýni. Einnig skiptir geymslurými miklu máli, að hlutirnir séu aðgengilegir án þess að útheimta klifur, bogur eða lyftingar. Þetta er langt í frá fullkomið en þó mun betra en eldhúsborðið eitt á árum áður. Hér eru svo myndir með skýringum og neðar fleiri myndir með útskýringum á því hvernig ég sauma standandi:

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Herbergið er lítið, 2,35m x 3,15m. Leiðsögnin hefst frá vinstri til hægri á fyrstu myndinni sem tekin er úr dyragættinni og heldur svo áfram réttsælis í herberginu. Svarta borðið er á upphækkunum svo það er í þægilegri hæð til að skera efni, aðeins lægra en saumaborðið. Undir því er ýmsu staflað til geymslu. Draumurinn er að fá kommóðu á hjólum þar undir. Á veggnum við svarta borðið er hönnunarveggur úr flónelsklæddum einangrunarplötum. Straubrettið stendur svo við gluggann þegar ég nota það en annars stendur það samanbrotið vinstra megin við gluggann. Hillurnar og saumaborðið eru hillukerfi frá IKEA. Undir saumaborðinu er skúffukálfur fyrir áhöld. Þar ofan á liggja skurðarstikur og motta. Ofan á saumaborðinu er skúffukassi með tvinna og nálum. Til hliðar við saumaborðið er skattholið sem ég fékk í fermingargjöf. Þar geymi ég aðallega efni og meiri tvinna. Þarna langar mig að hafa háa kommóðu. En ég tými ekki að láta skattholið frá mér og hef ekki annan stað fyrir það en þarna.

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

Vinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Og þá er það rúsínan í pylsuendanum, hvernig ég sauma standandi. Á gólfinu framan við saumaborðið er gúmmimotta sem ég hef skorið úr fyrir fótstiginu. Fótstigið fer öfugt ofan í gatið, þ.e. þykkari hlutinn snýr frá saumavélinni. Lítið pappaspjald með broti er við þykkari jaðarinn á fótstiginu til að hindra að það strandi á mottukantinum þegar stigið er á það það. Í stað þess að þrýsta táberginu á fótstigið eins og maður gerir í sitjandi stöðu þá nota ég hælinn. Ég stend í tábergið og hef þungann á því en stend þó aðeins léttar í þann fótinn en hinn. Mottan gegnir því hlutverki að "lækka" fótstigið á gólffletinum og stuðla að því að hægt sé að standa í báða fætur og dreifa þunganum sem jafnast. Fótstigið þarf að liggja lægra því annars yrði að standa á einum fæti. Þetta er ekkert grín, skal ég segja ykkur. Ökklinn hefur miklu minni hreyfanleika þegar maður stendur í fótinn en þegar maður situr á stól og tyllir bara táberginu ofan á fótstigið. Eins og ég hef sett þetta upp er niðurstiginu sennilega mestmegnis stjórnað með hnénu, rétta úr því án þess að læsa því og um leið sígur hællinn niður og þrýstir á fótstigið. Ég skar úr mottunni fyrir tveimur ólíkum fótstigum og geymi bitana til að loka því gati sem ég nota ekki í það og það skiptið, nú eða báðum og hef þá heila mottu þegar ég geri eitthvað annað en að sauma við borðið. Annað sem ég varð að breyta í saumasiðum mínum er að vera í skóm. Áður var ég alltaf bara í sokknum á hægri fæti þegar ég sat og saumaði. Það voru mikil viðbrigði.

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En flott! Er búin að vera að innrétta sauma-/gestherbergi hjá mér. Þarf greinilega að fá þig í heimsókn til að hjálpa mér að klára þannig að aðstaðan verði vinnuvistfræðilegri .

Ester Auður Elíasdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2011 kl. 22:38

2 identicon

Svakalega er þetta orðið fínt hjá þér!  Ég dáist líka að því hvernig þú leysir málið með fótstigið.  Svo finnst mér líka svo flott að hafa gamla hluti í saumaherberginu, eins og t.d. skattholið þitt, það gefur herberginu meiri karakter.  Gangi svo bara vel að sauma!

Hellen Sigurbjörg Helgadóttir (IP-tala skráð) 13.10.2011 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband