12.4.2011 | 08:14
Debrecen ferðasaga 7 - myndir
Það var afmæli hér í gær. Sonurinn hóf afmælisdaginn sinn á því að vakna klukkan 6 til að mæta í próf klukkan hálf átta. Mánudagsmorgnar eru víst fráteknir fyrir próf í deildinni. Skemmtilegar helgar þá eða hitt þó heldur. Við fengum okkur svo nýbakaða og volgt Baconos Croissant í bakarí þegar hann kom heim og var búinn að opna afmælisgjafir sem bárust. Svo var bara slökun eftir prófið, horfðum á bíómynd fram að hádegi.
Á meðan hann var í skólanum fór ég í paprikuleiðangur með Lázsló á grænmetismarkaðinn. Það er erfitt að fá þurrkaðar, heilar paprikur á þessum árstíma en við fundum þó einn sölubás. Hinar ýmsu gerðir malaðrar, ungverskrar papriku fylla hins vegar heilu hillumetrana úti í búð og hægt er að kaupa duftið í hálfs kílóa pakkningum eins og kaffi.
László bauð mér svo með sér í starfsstöðvar kærleiksþjónustu sviðs kalvinsku kirkjunnar þar sem hann er prestur. Þar er miðstöð kirkjunnar fyrir aldraða og fatlaða í borginni. Um 250 manns njóta þaðan ýmis konar þjónustu, m.a. heimavitjana, aðstoð við að komast til læknis og við samskipti við opinberar stofnanir. Húsnæðið hefur ekki gott aðgengi, það er í kjallara með þröngum stiga, langur og mjór gangur liggur eftir endilöngu og þröngt að komast inn í öll herbergi af honum. Þó fer fram fjölbreytt félagsstarf í húsnæði miðstöðvarinnar sem alla jafna er sótt af um 100 manns í viku hverri. Það var saumaklúbbur í gangi þegar ég kom. Á vegg þar inni var lífsins tré úr keramiki. Laufin bera nöfn notenda þjónustunnar og starfsmanna. Ég var svo leyst út með gjöfum, keramikflís með segulstáli og heklaðri blúndu sem blindur notandi bjó til.
Ég gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mér skó eftir hádegið. Það er mýgrútur af skóbúðum hérna og skómörkuðum. Ég er búin að þræða þær síðan ég kom. En það er eins og mitt númer sé bara ekki til í þvi sem ég get hugsað mér að ganga í, hvorki í sérverslunum né á mörkuðum. Svo ég er jafn skólaus og þegar ég kom. Þetta erindi fer að falla á tíma því ég flýg heim á morgun.
Seinni partinn mæltum við mæðginin okkur mót við háskólann og gengum þaðan á veitingastað í grenndinni sem gjarnan er sóttur af háskólafólki og héldum upp á afmælið.
Eftirmáli: Heimferðin þann 13. apríl var tíðindalítið, langt ferðalag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.