Debrecen ferðasaga 2 - myndir

Allt í lagi, ég skal viðurkenna að ungverska flugfélagið er ekki alfullkomið. Kannski gerðist það ekki hjá þeim heldur á Kastrup eða á flugvellinum í Búdapest en ferðataskan mín brotnaði. Í morgun gekk ég því út í Tesco og hafði þar upp á píparalímbandi til að styrkja hana fyrir næstu flugferð. Þar fór 10 ára ábyrgð framleiðanda töskunnar á ytra byrði hennar fyrir lítið. Taskan hefur bara farið einu sinni áður í flugferð. Hún reyndar gerði það gott sem leikmunur á sýningunni Góðverkin kalla hjá Halaleikhópnum í vetur. Nú er hún mörkuð, stýft framan hægra.

Hlýr dagur og sólríkur, sannkallað stuttermaveður fyrir Íslending. Ég þurfti þó að kaupa mér bol með síðum ermum því ég tók bara einn með og hér verður svalt innanhúss þegar líður á kvöld því það er engin ástæða til að kynda lengur. Maður fer bara fyrr að sofa og stingur sér undir sæng.Síðdegis fórum við mæðginin á kaffihús og hittum skólabróður minn. Það var alveg hreint yndislegt að sitja undir sólhlíf í heitum vindinum. Myndavélin var með í för en var ekki munduð til myndatöku. Það verður að bíða til morguns en þá ætlum við að skoða kirkjuna hans, þá stóru gulu, og fá okkur svo ungverskan hádegismat. Mér hefur verið ráðlagt að mæta svöng því ungverskar máltíðir séu staðgóðar og krefjandi.

Á heimleiðinni af kaffihúsinu fengum við okkur svo ungverskan kúluís um lúgu á kökubúð. Sonurinn hefur af miklum rausnarskap hlaðið í mig ýmis konar ungversku sætabrauði, m.a. þeirra útgáfu af kókoskúlum og kirsuberjavínarbrauð (eða þannig sko) sem ég sé vel fyrir mér að væri gott volgt með vanilluís. Það tekur á taugarnar að lifa svona á brúninni. 

Í kvöld eldaði ég svo pottrétt með samtíningi úr skápunum að viðbættum lauk og gulrótum úr Tesco. Þar sem ég þekki til minna takta við eldamennsku þótti mér vissara að setja upp "forklæde" svo nýji bolurinn liti ekki út eins og gervipardus á eftir.

Debrecen 2011 compr

Debrecen 2011 002 compr 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband