Debrecen ferðasaga 1 - myndir

Það er skammt stórra högga á milli hjá mér, reyndar er það hálfgert strandhögg í þetta skiptið. Ég lagði land undir fót og er í heimsókn hjá frumburðinum í Debrecen í Ungverjalandi. Ferðalagið var tíðindalítið þó langt væri og samsett úr aðskiljanlegustu einingum, m.a. lengstu ferð sem ég hef farið með leigubíl. Ég var svo ljónheppinn að hafa heila sætaröð fyrir mig í báðum flugferðum svo ég lá fyrir og las eins og mig lysti.

Það liggur við að mér finnist ég loksins sigld. Það er ekki að furða því gamla auglýsingastefið um "Gullfoss með glæstum bragð" hljómaði í kollinum á mér þar sem ég sat í vél ungverska flugfélagsins Malev. Sætisrýmið var svo rúmgott að manneskja að meðalhæð hefði getað krosslagt fótleggina. Þegar svo borin voru fram rúnstykki með osti, rifnum gulrótum og kryddsmjöri ásamt drykk án þess að það þyrfti að kaupa það sérstaklega, minntist ég þess að nú er hún Snorrabúð stekkur (aka íslensk flugfélög). Þegar valið stóð um vatn, tvær gerðir af ávaxtasafa, gos, rauðvín eða hvítvín ásamt kaffi eða te, rifjaðist upp Gullfossdraumur minn úr æsku. Mig langaði alltaf að sigla með Gullfoss, það var svo mikill glamúrbragur á þessari ímynd, en hann var lagður af áður en ég komst í siglingu.

Ég átti góðan dag á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn. Þar sá ég málverkasýningu  Bob Dylans og kom hún verulega á óvart, gleðilega mjög. Planið er að skrifa aðeins um hana seinna. Í morgun fór ég svo á miðbæjarrölt í Debrecen og fyrsta búðin sem ég fór í var álnavöru- og garnbúð. Hér er hægt að fá götuskó í öðrum litum en svörtum. Mig vantar eitt skópar svo ég hef ærið erindi að rölta um bæinn. Ég var fljót að renna á lyktina og finna álnavörubúð, fyrsta búðin sem ég hætti me´r inn í.

Hér er vorið komið, gróðurinn að taka við sér og hlýtt á daginn. Það má segja að ég haldi til í póstnúmeri 101. Aðaltorgið er hér við enda götunnar þar sem aðal kirkja borgarinnar Református Nagytemplom (Reformerta Miklakirkjan. Skólabróðir minn í USA er prestur við þessa kirkju og ætlum við að hittast á næstu dögum. Það verða svo rokktónleikar í kirkjunni á laugardagskvöldið og ætla ég ekki að missa af þeim.

Af öðrum túristaafrekum mínum í dag má nefna viðkomu í Tanner handverkmiðstöðinni og svo toppað með drykk á alvöru tehúsi. Það var dauft yfir vinnustofunum, engin virtist opin og ekkert að sjá utan stólar úr trjádrumbum í portinu. Það lifnaði svo yfir testofunni á meðan við sátum þar enda hægt að panta sér ungverska vatnspípu. Því miður er moggabloggið ekki þægilegt til uppsetningar á myndasyrpum svo það getur verið að næsta syrpur verði á Feisbúkk í opnum aðgangi.

Debrecen 2011 024 comprDebrecen 2011 011 comprDebrecen 2011 019 comprDebrecen 2011 045 compr Debrecen 2011 044 comprDebrecen 2011 043 comprDebrecen 2011 036 comprDebrecen 2011 050 comprDebrecen 2011 048 comprDebrecen 2011 029 comprDebrecen 2011 031 comprDebrecen 2011 026 compr

Debrecen 2011 032 comprDebrecen 2011 023 comprDebrecen 2011 010 comprDebrecen 2011 007 compr


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl. Þetta er algjör draumur. Gula kirkjan erflott eins og þú varst búin að segja mér. Hins vegar heilla hin blómgandi tré mig mest - væntanlega kirkjuberjatré. Njóttu lífis. Kveðja Ragnheiður

Ragnheiður Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband