Góðverkin kalla!

Leikaralið í Góðverkin kalla! - Ljósmyndar: Eggert Jóhannesson (Séð og Heyrt)

Leikritið Góðverkin kalla! var frumsýnt af Halaleikhópnum þann 4.  febrúar. Yðar einlæg leikur þar hlutverk. Það var yfirmáta skemmtilegt að sýna verkið fyrir fullu húsi. Bæði voru viðtökur áhorfenda með eindæmum líflegar og svo er áhöfnin úrvalslið einskærra gullmola. Þetta er frumraun mín á leiksviði og ég er alsæl með að hafa komist í gegnum allt ferlið, sérstaklega æfingarnar og nú sýningar. Það hefur algjörlega bjargað mér hvað allir í Halaleikhópnum hafa tekið mér vel, verið styðjandi og hvetjandi og verið einstaklega góð við mig. Verkinu var leikstýrt af Margréti Sverrisdóttur, leikkonu og Oddi Bjarna Þorkelssyni, leikstjóra. Þau eru algjör gæðasamloka. Þau hafa kennt mér gríðarlega mikið um leikinn og ekki síður um mennskuna og það hefur verið mjög nærandi. Að öllu samanlögðu og frádregnu hefur þetta verið mér gjöf lífsgleðinnar enda vettvangur þess að leika sér af fullri alvöru, líkt og í æsku.

Það voru miklar tilfæringar því tilheyrandi fyrir mig að taka þátt í þessu verkefni, finna leiðir til að gera ekki of mikið af neinu til að ráða við þetta án þess að fá "bakreikning". Fyrir vikið hefur ýmislegt annað skemmtilegt þurft að bíða til að spara líkamsburðina. Um leið hefur það kallað á að ég haldi til streitu þeim lífsstíl að stunda gönguferðir og sund. Enda hef ég lagt af í vetur, búin að missa öll meistarakílóin mín, þ.e. aukakílóin sem laumuðu sér inn á mig vegna kyrrsetu á meðan ég skrifaði meistararitgerðina á vorönninni. Ég segi eins og er, frekar leik ég aftur í leikriti en að láta plata mig með gylliboðum á einhverja líkamsræktarstöðina.

Myndin af leikhópnum sem hér fylgir með birtist á síðum Séð og Heyrt, tekin af Eggerti Jóhannessyni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband