28.1.2011 | 08:57
Veiðileyfi á gangandi fólk
Rauða ljósið skilst sem veiðileyfi á hinn gangandi vegfaranda sem enn er úti á götunni eftir að græni kallinn slokknar. Þetta er sérstaklega áberandi á beygjuakreinum. Það er ekki rétt að enn sé rautt á akandi umferð því á meðan grænt er á gangandi er grænt á akandi í sömu stefnum. Bilstjórar sem ætla að beygja yfir gangbrautina virða oft ekki rétt hins gangandi, sérstaklega ekki eftir að græni karlinn slokknar. Þannig var mér næstum slátrað af tveimur bílum í röð á Suðurlandsbrautinni við Grensásveginn í vetur.
Lengja tíma til að komast yfir götu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst þessi umræða sérstaklega merkileg. Ég hef búið í vesturbæ höfuðborgarinnar í tæp 10 ár og því lengi þurft að ferðast um þennann gamla, slitna hluta Reykjavíkur. Ég á lítinn bíl og fer í gegnum þrjú sveitafélög til vinnu. Samt sem áður geng ég mikið og hjóla oft tugi km á sumrin til daglegra starfa og leikja. Ég hef því ágætis reynslu sem ökumaður, gangandi vegfarandi og hjólreiðamanneskja. Reykjavíkurborg stendur sig ágætlega í að gera göngu- og hjólreiðastíga. Betur heldur en mörg nágrannasveitafélögin (*hóst* Kópavogur). En þegar kemur að stöðum þar sem akandi umferð og önnur (gangandi/hjólandi) mætast virðist enginn vilji til úrbóta.
Fyrir nokkrum árum fékk ég mig fullsadda af því að ferðast um Hringbrautina á morgnanna. Ef ég var á bíl þurfti ég að stoppa á rauðu ljósi á nokkurra metra fresti. Þetta gerði umferðina stirða, pirraði ökumenn, og fékk þá frekar til að taka áhættur með því að "svína" á ljósunum (eins og þú sjálf hefur greinilega orðið vör við miðað við greinina þína). Ef ég var á hjóli eða gangandi, átti ég fótum mínum (eða hjólum) sífellt fjör að launa vegna þess hve gönguljósin komu seint og vörðu stutt.
Mér fannst svarið vera einfalt og ritaði umhverfissviði borgarinnar (þá í höndum R-listans) litla nótu þess efnis. Mér fannst borðleggjandi að henda út hættulegum gönguljósum Hringbrautar (sem eru þrjú stykki á mjög stuttum kafla) og skella annað hvort göngbrúm eða undirgöngum í staðinn. Ég sá strax fyrir mér að fallegur bogi gæti legið frá kirkjugarðinum við Ljósvallagötuna yfir á svæðið við Háskólabókasafnið. Annar slíkur gæti verið frá Hljómskálagarðinum og yfir á háskólasvæðið (nóg er af plássi). Það sem ég hafði í huga fyrir þessum árum síðan var sannarlega eitthvað smekklegra og nytsamlegra heldur en hringsólandi vitleysan sem var síðar gerð á gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar (einu verurnar sem ég sé nokkurn tíman nota það monster eru ferðamenn og kettir). En sem sagt, ég skrifaði umhverfissviði borgarinnar og hélt að þar tækju menn slíkum ábendingum frá borgarbúum fagnandi. Svo var ekki.
Svarið sem ég fékk var að stefna Reykjarvíkurborgar væri að allir væru samferða í umferðinni. Já, takk fyrir og veskú! Við ökumenn skyldum bara láta okkur hafa það að taka dansspor á bensíngjöf og bremsu á Hringbrautinni því að við eigum svo mikla samleið með gangandi vegfarendum. Og við sem ferðumst á tveimur jafnfljótum skyldum sko æfa þá vandlega svo þeir geti flúið undan öskrandi bifreiðum. Það er nefnilega svo krúttlegt að allir séu samferða í umferðinni. Skítt með það hvort einhverjir láti lífið í kjölfarið.
Ég viðurkenni að ég barðist ekki við báknið í það sinn, enda flokkarnir blessuðu óðum að verða upptekknir á því að berjast sín á milli (engin samleið þar á bæ). Þegar Besti flokkurinn ruddist svo inn á sjónarsviðið hélt ég aftur að það væru að myndast skilyrði fyrir þörfum vesturbæings. Ég skráði mig á Skuggaborg og óskaði eftir því að göngubrýr / undirgöng yfir / undir Hringbraut yrðu skoðaðar. Ég var þumluð niður í kjallara af brjáluðum húsmæðrum í vesturbænum sem sáu ekkert nema hraðahindranir á Hringbrautina. Það er greinilegt að þessar ágætu konur hafa ekki mikið keyrt í morguntraffíkinni. Ef við setjum hraðahindranir á stofnbrautir eins og Hringbraut þá færist umferðin bara út í hverfin. Er það eitthvað betra?
Já, það virðist ekki mega hugsa í lausnum - alla vega ekki ef þær fela í sér að allir verði ekki samferða í umferðinni. Höldum því áfram að etja fólki á ferðinni saman. Það má ekki taka af neinum veiðileyfið!
Kolbrún Valbergsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2011 kl. 10:22
Takk, Kolbrún. Skot í mark. Ég er búin að vera í hjólapakkanum líka, hjóla úr póstnúmeri 104 út í HÍ og finnst merkilegt að ég sé enn til frásagnar.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 28.1.2011 kl. 10:38
Kolbrún, mjög athyglisvert innlegg. Ég hef sjálfur lagt til vissar úrbætur í Reykjavík og enn sem komið er hefur ekkert komið út úr því. Persónulega er ég ánægður með margt í Reykjavík, enda hef ég búið í Kópavogi og veit hvernig það er að búa við ruglingslegt gatnakerfi og lélega göngustíga, en það er engu að síður leiðinlegt að borgarstjórnarmeðlimir hafi lítinn áhuga á að ræða við okkur litla fólkið um hugmyndir.
Jón Flón (IP-tala skráð) 28.1.2011 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.