17.10.2010 | 11:02
Áfram veginn, framhald úr síðasta þætti
Litirnir urðu heldur fleiri í veggteppið en ég sýndi í síðustu færslu. Myndin í síðustu færslu var grunnvalið, svo spann ég út frá því. Nú er ég búin að sauma saman nokkrar einingar. Framundan er að raða þeim upp og skeyta saman með fleiri ræmum. Þessi nálgun í vinnslu kallast upp á ensku "design as you go." Ég mundi kalla það "hannað eftir hendinni." Verkið er þegar komið með nafn eftir tillögu Nínu Leósdóttur sem stakk upp á "Sprettur," innblásið af því að þetta er fyrsta verkið sem ég sauma alfarið standandi og í hlaupaskónum í þokkabót. Vinnuaðstaðan er öll að taka á sig mynd, ýmis tæknileg vandamál á standandi saumaskap hafa verið að leysast smátt og smátt. Þegar það er allt komið í viðunandi horf mun ég setja hér inn myndir af því hvernig til tókst og útskýra snilldina á bak við það.
Hér á eftir koma myndir að Sprettinum (kk. et.) eða Sprettunum (kvk. flt). Fyrst er aftur sama mynd og í síðustu færslu af grunnvali efna. Ég byrjaði með steinamynstrið lengst til vinstri á myndinni og valdi hin út frá því. Næsta mynd er með efnunum sem ég bætti við það. Svo koma myndir af stykkjunum sem ég er búin að sauma saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.