28.9.2010 | 10:02
Fyrirmyndir til innblásturs
Það eru tvær bútalistakonur sem ég er að skoða núna. Önnur er Ellin Larimer og hin er Pat Pauly.
Efra verkið er eftir Ellen Larimer og hið neðra er eftir Pat Pauly:
Þó stíll þeirra sé ólíkur eiga þær það sameiginlegt að vinna með línuna en með mismunandi hætti. Með því á ég við að lögun, stefna og samhengi línunnar er afgerandi þáttur í myndbyggingu verka þeirra. Myndlist byggir á nokkrum eðlisþáttum: línu, formi, lit, áferð og rými. Þjálfun í að horfa á myndlist felur m.a. í sér að skilja þess þætti, beitingu þeirra og áhrifum í verkinu. Ég læri mikið af því að skoða svona verk nánar og skilja hvernig hönnun þeirra er hugsuð. Slík yfirlega hefur reynst mér góð þjálfun fyrir augað, hún kennir mér að sjá, enda liggur skilningur og innsæi að baki þeim uppgötvunum sem ég geri við það.
Hér er íslensk vefsíða þar sem Hafdís Ólafsdóttir fræðir um myndbyggingu og formfræði.
Á vefsíðunni The Textile Blog er færsla um Pat Pauly og verk hennar. Á þessum vef skrifar John Hopper um sögu textíllistarinnar.
Einn meginmunur á hefðbundnum bútasaum og "art quilting" (sem ég kalla bútakúnst) liggur í hönnuninni. Í "art quilting" er tekist á við myndbygginguna og formfræðina frá grunni í eigin hönnun. Í hefðbundnum bútasauma er vissulega líka unnið með eigin hönnun en þar er þó alla jafna stuðst við þekkt form og þau útfærð með litavali og uppröðun. Þar vill stundum gleymast af formin og línurnar út af fyrir sig eru ekki nóg til að fá fallegt teppi, jafnvel ekki heldur þó valin séu saman séu góðir litir og mynstur á efni. Samspil allra þessara þessara skiptir máli fyrir heildarmyndina, t.d. hvaða fletir eru ljósir og hverjir eru dökkir. Ég hef oft rekið mig á að erfitt er að fá efni í ljósum litum sem henta í listrænan bútasaum.
En svo er líka þriðji styrkleikaflokkurinn, "medium" eða miðlungs, sem líka er erfitt að finna. Bútasaumsefni eru gjarnan í mettuðum litum því þeir grípa augað og hefð er fyrir því að ramma þá inn með hlutlausari litum, s.s. dröppuðu eða grátónum, jafnvel í lítið minni styrkleika/mettun. Í bútasaum er því oft gripið til þess ráð að setja fram andstæður í ólíkum litum í stað þess að nota litastyrkleika eða lýsingu. Þetta á meðal annars þátt í því að fólk í listrænum bútasaumi fer út í að lita efnin sín sjálf til að fá þá tóna og litróf sem verkin þeirra þarfnast. Það er efni í heila stúdíu út af fyrir sig og helst af öllu eigið þvottahús með nægu rennandi vatni!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.