23.9.2010 | 19:31
Skartgripagerð með endurvinnslu
Þó hljótt sé á bloggsíðunni minni er fjarri því að líf mitt sé einhver lágdeyða. Á milli þess sem ég fer í gönguferðir og sund eða þurrka af heima hjá mér og raða í skúffur og skápa dunda ég mér við að læra að nota áhöld til skartgripagerðar. Þó handbragðið eigi enn eitthvað í land með að vera vel þjálfað þá hef ég gert skemmtilegt skart úr perlum sem ég hef bý líka til. Hér er sýnishorn:
Perlurnar bý ég til með endurvinnslu og hef ég einnig dundað mér við að vefja allt víravirkið, tengikróka og keðjulás. Þetta er glettilega skemmtilegt, ekki síst vegna þess að verkið er ekki fljótklárað og því hægt að hlakka til þess að koma að því aftur síðar. Sumir eru ekki hrifnir af slíku dundi heldur vilja skella í föndur á augabragði og klára sem fyrst. Það hentar mér ekki alfarið. Ég tel ekki afköstin heldur nýt vegferðarinnar á meðan hluturinn er búinn til, alveg eins og með aðra listsköpun. Það er ferlið en ekki afurðin sem listamaðurinn nærir sitt innra líf á. Seldar afurðir geta hins vegar skaffað salt í grautinn og smjör á brauðið. Það styrkir reyndar sjálfsmyndina líka.
Annar kostur við skartgripagerðina er að ég þarf ekki að sitja við hana og get jafnvel rölt um. Nú er bara að finna einhverja leið til að vinna standandi í báða fætur við saumavélina. Það er öllu flóknara.
Set hér inn myndband um hinar ýmsu tangir sem nota má við skartgripagerð og virkni þeirra, fengið af síðu WigJig Jewelry Making University, http://www.squidoo.com/cutjewelrywire
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.