23.7.2010 | 10:44
Útskriftarveisla á afmælisdegi - framtíðarsýn
Afmælis- og útskriftarveisla var haldin þann 21. júlí sl. Útskriftin var 10. maí sl. Þá útskrifaðist ég með akademíska meistaragráðu í guðfræði frá Wesley Theological Seminary í Washington DC í Bandaríkjunum. Gráðan heitir Master of Theological Studies (MTS) og er fullnuð með lokaritgerð eftir tveggja ára nám. Áhersla mín í náminu var á guðfræði og listir. Í meistararitgerðinni tengdi ég saman listsköpun og sálgæslu á hagnýtan hátt í kjölfar vettvangsrannsóknar. Heiti ritgerðarinnar er "Face Value: Self-portraits as World View in Pastoral Care."
Á námstímanum lauk ég einnig fyrsta stigi í verklegu námi í sálgæslu á sjúkrahúsi frá National Institutes of Health Clinical Center. Það er réttindanám, vottað af Association of Clinical Pastoral Education. Námið er ekki til hér á landi en síðast þegar ég vissi hafði Landspítalinn þær kröfur að starfsmenn sálgæsluteymis sjúkrahússins hefðu lokið því
Undanfarin tvö ár eru búin að vera mikið ævintýri og upplýsandi á margan hátt sem um leið gerir kröfur til endurskoðunar og endurmats. Ég er ánægð með námið, sérstaklega vegna þess að þar buðust mér aðrar áherslur í vali, nálgun og úrvinnslu viðfangsefna en tíðkast hér á landi. Ég mundi segja að meistaranámið mitt hafi höfðað til fjölgreindar og veitt tækifæri til hagnýtrar útfærslu viðfangsefna.
Ég er eðlilega mikið spurð hvað ég ætli svo að gera við þetta allt saman. Það er nú svo um guðfræðimenntað fólk að vilji og veruleiki fara ekki alltaf saman þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Þá reynir á fólk að finna sér vettvang sem nærir á einhvern hátt þá köllun sem knúði það til dáða, oft á allt öðrum vettvangi en það hafði kannski upphaflega stefnt á. Löngun mín liggur til þess að sinna hópastarfi fullorðins fólks sem fléttar saman fullorðinsfræðslu, skapandi virkni og sálgæslu til eflingar mennskunnar í viðfangsefnum dagslegs líf og lifandi rækt við andlegt líf. Þetta hljómar kannski eins og lýsing á blöðru. En þegar glöggt er skoðað er sú lýsing ekki fjarri sanni. Blaðran er tákn þess tilefnis sem blæs hana upp. Það lekur svo úr henni eftir því sem líður á og við leggjum hana frá okkur þegar hlutverki hennar er lokið. Þannig lít ég á andlegt starf. Það á ekki að steypa upp staðnaða skúlptúra, verkefni sem engan endi taka og halda fólki föstu í persónulegri eða praktískri merkingu. Fólk er fljót sem flæðir með hjartslætti lífsins. Viðfangsefni þess breytast og stundum þarf að fletta við síðu. Á vettvangi kirkjunnar þarf að vera sveigjanleiki til að þróa og þroska starf með fullorðnu fólki sem kemur og fer eins og aðstæður þess leyfa eða krefjast.
Mig langar að vinna með fólki í slíkum aðstæðum, hlæja með því og gráta eins og við á og finna saman leiðir til verðugs lífs sem er þrungið merkingu í samhljómi tilverunnar. Þar gegnir skapandi virkni mikilvægu hlutverki því hún nær að nálgast viðfangsefnin með líkingamáli sem oft nær betur að tjá og túlka reynslu okkar og úrvinnslu en orðin ein. Skapandi virkni tengir fólk saman í samfélagi til áhrifa í eigin lífi og hefur burði til að hafa áhrif út fyrir hópinn, jafnvel út í þjóðfélagið. Þetta er einnig erindi kirkjunnar því guð sem sendir hana á erindi við manneskjur.
Athugasemdir
Mér finnst þetta flott framtíðarsýn og nauðsynleg í þjóðfélaginu okkar í dag, eða eins og þú skrifar: "hlæja með því (fólkinu) og gráta eins við á og finna saman leiðir til verðugs lífs sem eru þrungnar merkingu í samhljómi tilverunnar" - AKKUART
Gangi þér vel með þetta verkefni og ég hlakka til að fylgjast með þér á komandi árum:)
kær kveðja
Guðrún Stef
("gömul" skólasystir!)
Guðrún Stefáns (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 11:11
Til hamingju með afmælið og árangurinn!
Hellen Sigurbjörg Helgadóttir (IP-tala skráð) 24.7.2010 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.