Mannalæti - veppteppi

Ólöf I. Davíðsdóttir - Mannalæti

Hér er nýjasta veggteppið mitt, "Mannalæti." Það er 74x85cm að stærð, saumað saman úr bútum og einnig með applikeringu. Síðan stakk ég það fríhendis í saumavélinni. Bryddingin er saumuð niður bæði í vél og í höndunum.

Inntak verksins tengist frásögnum Gamla testamentisins af forsjá og nægjusemi. Þetta eru  sögurnar af brauðinu frá himnum, manna (2Mósebók 16). Um svipað leiti og ég fór að vinna þetta teppi, dembdust yfir okkur fréttir að málshöfðunum vegna svika, svika sem knúin voru af ágirnd og hroka. Pörupiltarnir kepptust hver um annan þveran að bera upp ámátlegar sjálfsréttlætingar í fjölmiðlumog kölluðu það afsakanir á skipbrotinu sem þeir höfðu lent í. Þessar óskyldu sögur runnu saman í þrunginni merkingu.

Það er nú aldeilis búið að taka tímann sinn að sauma þetta stykki þó ekki sé það stórt. Ég sneið og saumaði saman bútana í apríl og byrjaði að stinga teppið fyrir tveimur mánuðum. Stungunni hefði ég átt að geta lokið á einni dagstund. Ég vildi að afköstin gætu verið meiri en sé ekki fram á að það breytist í bráð. Það bíða svo mörg spennandi verkefni eftir því að komast af pappírsstigi hönnunar yfir í tauið. Á vorönninni hannaði ég nokkur altarisklæði í meistaranáminu í kúrsi sem ég tók við Wesley um textaraðir Þjóðkirkjunnar frá föstu til uppstigningardags. Það verður að bíða betri tíma og potast kannski áfram, einn bút í senn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband