Öllu gamni fylgir nokkur alvara (eða Besti flokkurinn hvað?)

Jester Card frá Every Stock PhotoÞað hefur þótt til mannkosta að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega og geta gert góðlátlegt grín að sjálfum sér. Það þykir einnig háttvísi að vera fyndinn á eigin kostnað en ekki annarra. Við Íslendingar erum þeim eiginleika gædd að geta gert grín að okkur sem þjóð. Við verðum ekki einu sinni hörundsár þegar erlendar þjóðir gera grín að okkur. Við brosum góðlátlega því okkur finnst það krúttlegt. Um leið verðum við upp með okkur vegna þess að eftir okkur var tekið. Við erum skemmtilega hégómleg. Sumir telja það stafa af minnimáttarkennd og þjóðrembu. Við tökum spaugið ekki nærri okkur því við tökum ádeiluna ekki til okkar.

En við, sem þjóð, eigum til að taka gagnrýni sem sett er fram af fullri alvöru með sama hætti. Við tökum gagnrýni ekki til okkar heldur. Við getum ekki tekið okkur alvarlega því við erum hégómleg. Gagnrýnisraddir eru gjarnan beittar þöggun. Ýmist er gert lítið úr þeim sem gagnrýnir,  hæfni hans og þekkingu, hann sakaður um óháttvísi eða beitur háði á móti og jafnvel afskrifaður sem kjánalegur. Fræg að endemum eru nýfallin ummæli stjórnmálamanns um að skýrsla rannsóknarnefndar muni þvælast tímabundið fyrir okkur. Í fréttum í dag kvartaði forsætisráðherra undan því að þingmaður hefði ekki haldið gagnrýni sinni innanhúss því mikilvægt væri að stjórnin birtist út á við sem alsæl, samhent fjölskylda. Veruleikinn virðist aukaatriði. Það skiptir mestu að koma vel fyrir. Gagnrýnandinn var vændur um óháttvísi til að drepa málefninu á dreif. Ráðamenn þessa lands virðast ekki deila þeirri afstöðu með mér að málefnaleg gagnrýni sem tekin er upp af alvöru fyrir opnum tjöldum og leiðir til endurskoðunar og jafnvel breytinga á framkvæmd eða skoðunum, er ein af forsendum trúverðugleika og trausts í stjórnmálum.

Í þessu ljósi vil ég skoða háðsádeilu Besta flokksins. Það er innistæða fyrir henni. Kannski ekki  gulltryggð upp í topp. En þess hefur heldur ekki þurft hér á landi undanfarin ár. Þau sem ættu að taka gagnrýnina til sín og bregðast við með uppbyggilegum hætti vilja þagga hana niður með því að afskrifa hana sem fíflalæti. Hégómleikinn er auðmýktinni yfirsterkari. Um leið gleymist að öllu gamni fylgir nokkur alvara. Ég tel Besta flokknum vera fullkomin alvara með háðsádeilu sinni. Ég ætla ekki að leggja mat á alvöru hans með framboðinu. Þar verða verkin að sýna merkin. Þess hefur þó heldur ekki þurft hér á landi undanfarin ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband