Færsluflokkur: Menning og listir
7.8.2008 | 09:53
Fíll í salnum
Fræg að endemum er systir Jackson sem afhjúpaði annað brjóstið á tónleikum í beinni sjónvarpsútsendingu og uppskar hneykslan margra. Hún sýndi þá fyrirhyggju og smekkvísi að hylja eigin geirvörtu með dúlludúski að hætti súludansmeyja. Ég ætla rétt að vona að Berlusconi hafi ekki útvegað einn slíkan til að skemma málverkið eftir snillinginn Tiepolo frá 18. öld. Uppátæki Janet Jackson var hvorki frumlegt né nýtt af nálinni því listmálarar hafa öldum saman berað annað brjóstið á kvenmyndum sínum og það án nokkurs tepruskapar eins og poppstjarnan. Berlusconi er kannski ágætt dæmi um þann sem sér ekki bjálkann í eigin auga.
Um tilslakanir Vatikansins samkvæmt fréttinni skal ég ekki segja. Myndina til vinstri tók ég í listasafni Vatikansins. Það er hægt að ritskoða list með ýmsu öðru móti en að breyta henni, t.d. með því að sýna hana ekki eða kaupa ekki. Í listasafni Vatikansins er gríðarlegur fjöldi listaverka og hrein unun að ganga þar um. Ég hef aldrei séð slíkan fjölda fólks samankominn á listasafni nema við opnun sýninga. Mesta svigrúmið til að njóta lista þar var í safni nútímaverkanna enda strunsuðu flestir þar framhjá. Því miður eru þau verk ekki á vefsíðu Vatikansafnsins. Mörg hinna nýrri verka eru mjög grípandi. Því miður var ég slíkur asni að spara megabætin á myndavélinni minni þangað til ég kæmi í kapellu Michaelangelo svo ég á afar fáar myndir úr þessari álmu safnsins. Það er hægt að skoða verk meistarans miklu betur í bókum og á netinu en það er eins og maður hafi dulda þörf fyrir að eiga fingrafarið sitt í heimssögunni á stafrænu formi. Svo mátti hvort eð er ekki taka myndir í kapellunni en þegar til átti að taka. Stóra lexían er að enga stund höfum við í hendi nema núið.
Brjóstamál Berlusconis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2008 | 08:38
Bland í poka
Í haust heimsóttu mig tvær bandarískar konur sem starfa með félaginu Material for the Arts í New York. Félagið safnar afgangs hráefni frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum sem getur nýst við listsköpun en hefði annars hafnað sem landfylling. Þessu er svo dreift endurgjaldslaust til skóla, félagsmiðstöðva, listafólks, endurhæfingarstofnana og fleiri þar sem restunum er umbreytt í margvíslegri listsköpun. Stöllurnar gáfu mér og fleiri íslenskum konum sem þær hittu smápoka sem afskurðum og ýmsum smáhlutum með áskorun um að búa til textílverk sem er a.m.k. 30x30 cm. Þessi verk ætla þær síðan að skrifa um í fréttabréf og tímarit.
Á myndunum er annars vegar innihaldið í pokaskjattanum mínum og svo smá sýnishorn af vinnunni minni sem komin er vel af stað. Þarna er nota ég aðferð sem ég hef ekki notað áður, álímingu (e. fusing), til að gera eins konar "kaleidoscope" eða mandölu. Ég klippti út samstæða bita úr efni og raðaði niður í stjörnu. Nú á ég eftir að fylla út í miðju og jaðra. Stefni á að ljúka því í dag. Það fer þó allt eftir því hvernig andinn blæs hvort verkinu lýkur í dag eða á morgun.
Það er alveg nauðsynlegt að hafa fleiri en eitt verk í gangi í einu. Sumt þarf að fá að gerjast á miðri leið eins og flögurnar í næstu færslu á undan og þá er gott að grípa í annað á meðan. Bakvinnslan hefur þá næði til að finna snilldarlausnir fyrir viðfangsefnið.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2008 | 22:52
Hönnunarhamur
Þér, lesanda, gefst kostur á að taka þátt í skoðanakönnun. Hér neðan við erum tvær myndir af sitt hvorri útfærslunni á sama forminu. Segðu mér hvor fellur betur að auga þínu, myndin vinstra megin eða myndin hægra megin. Ef þú getur, segðu mér þá líka hvers vegna.
Þetta er partur af heljarinnar samsæri. Ég er að vinna annað veggteppi úr sömu hugmynd og þetta hér. Það sem hér sést er aðeins brot af teppinu öllu. Auðvitað er ég einráð um hvor uppsetningin verður fyrir valinu og hef þegar myndað mér skoðun en mig langar til að gefa þér hlutdeild í heilabrotunum. Já, listin líkir eftir lífinu - valkostir, valkostir, valkostir. Þannig er líf listakonu líka - valkostir, valkostir, valkostir.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)