Römm er sú taug

JúrógleðiÞessa dagana lep ég upp allt sem má mér til styrktar verða í fríinu enda stutt stopp á Fróni. Það er svo mikilvægt að fylla á alla tanka. Ég var svo einföld að búast við að síminn mundi ekki stoppa hér heima eftir að ég lenti en það hefur enginn hringt nema tengdapabbi að bjóða mig velkomna heim. Svo ég rása út á meðal þjóðarinnar í staðinn og það er þrusugott.

Listahátíð varð fyrir valinu á laugardaginn. Stangardansararnir áströlsku voru einstaklega frumlegir og það var mikil upplyfting fyrir mig að verða vitni að því. Í gær fórum við hjónin niður á Austurvöll að taka á móti Júróvisjón hópnum. Í venjulegu árferði hefði mér aldrei komið til hugar að fara þangað af þessu tilfelli enda nánast hætt að fylgjast með keppninni. En nú er allt sem þjóðlegt er dýrmætara en gull, að vera innan um fólk sem talar sama mál og ég og deilir sömu menningu er hvíld fyrir sálina. Úti í Ameríku finnst mér skondið að verða vitni að þjóðrembunni sem mér finnst svo sjálfsögð hér heima. Úti fór allt á annan endann út af úrslitaleiknum í Super Bowl og mér stóð nákvæmlega á sama um embættisinnsetningu nýs forseta þar sem ég stóð ásamt milljónunum við Washington Monument en hér skunda ég á Austurvöll og treysti mín heit. Ég hefði þó átt að taka með mér búsáhöld, jafnvel á báða staðina.

Ég fór í messu í gærmorgun og svo fórum við í ísbúðina eftir hádegið og spókuðum okkur með sólþyrstum Reykvíkingum þennan heitasta dag vorsins. Það er svo gaman að því hvernig allt umhverfist hér í góðu veðri. Í því tilliti kunnum við Íslendingar að grípa daginn og verðum eitthvað svo afslöppuð í framan eftir frostviprur undangenginna umhleypinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband