Yfirklór

SykurkarÉg borga sykurskatt með einu skilyrði: að hann renni óskertur til greiðslu fyrir tannlækningar skólabarna. Það dregur ekki úr gosdrykkjaneyslu þó verðið hækki. Það kemur smá afturkippur í söluna og svo nær hún sér aftur á strik. Það er fleira en gosdrykkir sem skemmir tennurnar.

Sykur fer í fleira en gosdrykki. Ég sé lítið vit í því að setja sykurskatt á hálfu teskeiðina af sykri sem fer í brauðdeigið mitt til að næra gerið. Það fer sykur í uppstúfið með bjúgunum og hangiketinu. Frekar en að liggja í bakaríum er af og til bakað á þessu heimili og það er óþarfi að leggja sykurskatt á heimilisbaksturinn. Svo náttúrulega nota ég sykur til að brúna kartöflur á stórhátíðum. Af og til baka ég pönnukökur og þær eru bestar nýbakaðar með strásykursskán. Nei, nú skal skattleggja íslenskar heimilishefðir af því að einhverjir drekka of mikið af gosi. Það verður gósentíð hjá Skattmann þegar íslenskar húsmæður fara að sulta rabbabarann í gríð og erg í haust til að drýgja matarpeningana. Kíló á móti kílói, góð innkoma þar í ríkissjóð.

Ég man eftir herferð þar sem auka átti mjólkurneyslu barna til að vega á móti gosdrykkjunni. Mjólk var sett í skólamáltíðir og safinn tekinn út. Kalkið átti að efla tannheilsuna. Þá komst einhver spekingurinn að þvi að ekki væri nóg drukkið af vatni. Einnig var öll þessi mjólki orðin fitandi fyrir íslensk börn sem hreyfðu sig víst ekki nóg og væru orðin alltof þung. Mjólkin fór úr skólamáltíðinum og vatnið sett inn. Til að halda niðri kostnaði áttu börnin að mæta með drykkjarglös í skólann. Þau fóru upp á hillu svo þau væru ekki fyrir og ekkert barn mundi eftir að drekka vatn því glasið var ekki í augsýn og vatnið ekki á vegi þeirra. Ekki var farið út í að setja upp drykkjahana í stórum stíl. Í barnaskólanum okkar var einn slíkur hani innan dyra en börnin mín forðuðust að nota hann því það var alltaf rusl í honum. Glösin týndu tölunni þó merkt væru, líkt og inniskórnir sem uppálagt var að mæta með í skólann svo ekki þyrfti að þrífa gólfin eins oft og til að draga úr táfýlu og bæta fótaheilsu barnanna.

Af hverju eru ekki drykkjarvatnshanar inni í stórverslunum svo maður geti fengið sér sopa í stað þess að rjúka á næstu goshillu og byrja að þamba áður en maður borgar? Af hverju kostar vatn á flöskum ekki kúk á kanil?

Má ekki setja upp vatnshana, ala á góðri umgengni um þá og sjá börnum og ungmennum fyrir endurgjaldslausum tannlækningum? Koma þeim á barnsaldri í þá rútína að stunda reglulega tannhirðu undir reglulegu eftirliti tannlæknis? 


mbl.is Sykurskattur fyrir lýðheilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband