Milljónamáltíð - Ofnbakaður þorskur

Þegar ég safna saman afgöngum úr ísskápnum og steypi saman í heildstæða máltíð kalla ég þá matreiðslu gjarnan milljónamáltíð eða milljónasteik. Milljónin hefur svo sem enga sérstaka tengingu aðra en einingafjöldann. En kannski felst þar í skírskotun til margbreytileika milljónasamfélaga þar sem oft lifa saman mismunandi kúltúrar svo úr verður sambræðsla (e. fusion) í matargerð.

Milljónamáltíð, þorskur

Hér segir frá slíkum fiskrétti, gratíneruðum þorskhnökkum í dillsinnepssósu. Þorskurinn var nýr en allt hitt var til í matarkistunni heima. Ég gerði sósuna úr majonesi, 18% sýrðum rjóma og slettu af dillsinnepi að viðbættu hvítlauksdufti og limepipar. Fiskinn skar ég í munnbita og blandaði í skál saman við matarafganga sem voru svartar baunir úr dós, ofnsteikt blómkál, soðnar/ofnsteiktar kartöflur og hálfur rauðlaukur sem ég brytjaði smátt. Ég saltaði þessa blöndu og hrærði svo sósunni saman við. Allt fór síðan í eldfast mót og rifnum osti stráð yfir. Herlegheitin voru loks ofnbökuð við 200¨C í 30 mínútur.

Með þessu var borið fram ferskt salat og súrdeigbrauð sem ég bakaði fyrr um daginn.

Súrdeigsbrauð, heilhveiti

Dillsinnepið fékk ég í Krónunni á sínum tíma og hefur reynst skemmtileg viðbót við bragðflóru matarbúrsins. Það er bragðmikið og dillið áberandi. Því er vissara að gæta hófsemi við skömmtun til að ganga ekki fram af eigin bragðsmekk.

Dillsinnep


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband