Færsluflokkur: Bloggar

Þorskréttur með tómötum og pepperóní

Af og til verður til kvöldverðarréttur úr hinum ýmsu afgöngum og hef ég oft kallað slíka rétti milljónamáltíð. Nafngiftin felst í því að innihaldsefnin eru oft mörg en líka vegna þess að maturinn varð oft svo góður að hann er milljónar virði í afstæðri ánægjuupplifun. Hér er það þorskréttur gerður eftir sömu formúlu og stóðst milljónaprófið heldur betur.


Þorskréttur

Ég brytjaði niður 1 tómat, 3 sólþurrkaða tómata, 6 sneiðar af pepperóní og hálfan rauðlauk. Þessu hrærði ég saman ásamt 3 matskeiðum af þurrkaðri brauðmylsnu (heimatilbúin) og 1 matskeið af ólívuolíu. Blönduna kryddaði ég með salti, svörtum pipar og 1/2 matskeið af þurrkaðri steinselju. Þorskurinn var 750 grömm. Hann skar ég í litla bita og mokaði þeim í smurt, eldfast fast, dreifði síðan grænmetisblöndunni jafnt yfir og bakaði svo herlegheitin við 180°C í 25 mínútur. Réttinn bar ég fram með soðnum kartöflur og maís.

Kartöflur og maís er ekki heppileg blanda sem meðlæti þar sem hvoru tveggja er sterkja. En, stundum bara vill maður eitthvað og þá er bara að láta eftir sér. Þorskurinn var það eina sem var keypt sérstaklega í réttinn en allt hitt var til átekið í ísskápnum. Þannig reyni ég að haga matseld sem mest til að nýta hráefni vel.


Gemsuskegg - Aruncus aethusifolius

Gemsuskegg bætt við garðaflóruna mína í maí 2020. Plöntuna fann ég í Garðheimum. Plantan er smávaxnara afbrigði af geitaskeggi. Eitthvað finnst mér mísvísandi upplýsingar um hvaða birta hentar henni best en ætla þó að velja á hálfskugga til að fara milliveginn og leggja mest traust á það sem skrifað setndur á vef Garðaflóru. Hún er skyld musterisblómi en minni og blómstrar fyrr en Astilbe Chinensis, kínablómið, sem ég er með í beði. Haustlitirnir verða margtóna gulir og appelsínugulir ef hún fær einhverja sól. Hún ætti því að gleðja augað lengi frameftir.

Myndir er sótt af Wikimedia Commons.

Aruncus aethusifolius GotBot 2015 002


Ljósalyng - Andromeda Polifolia

Ég fékk mér þessa plöntu, ljósalyng, í garðinn núna í maí 2020. Hana fékk ég hjá Storð. Samkvæmt upplýsingum á plöntulista garðplöntuframleiðenda þrífst ljósalyng best á skuggsælum stað í framræstum, súrum jarðvegi og þarf vetrarskýlingu fyrstu árin. Plantan er eitruð sem þarf að muna vel því hún líkist rósmarín í útliti. Hún er sígræn og blómstrar snemma vors bleikum kúlulaga blómum.

ljosalyng

Til að byrja með ætla ég að hafa hana í gróðurkeri. Svo þarf ég að spá í það í sumar hvernig ég skýli henni í vetur. Ætli hún verði ekki tekin inn á pall undir svalirnar fyrir ofan og útbúið einhvers konar strigatjald yfir hana. Ljósalyng á að henta vel í potta því það er hægvaxta og smágert, í steinhæðir og kanta á beðum. Mér sýnist því framtíð plöntunnar vera björt í mínum garði.


Milljónamáltíð - Ofnbakaður þorskur

Þegar ég safna saman afgöngum úr ísskápnum og steypi saman í heildstæða máltíð kalla ég þá matreiðslu gjarnan milljónamáltíð eða milljónasteik. Milljónin hefur svo sem enga sérstaka tengingu aðra en einingafjöldann. En kannski felst þar í skírskotun til margbreytileika milljónasamfélaga þar sem oft lifa saman mismunandi kúltúrar svo úr verður sambræðsla (e. fusion) í matargerð.

Milljónamáltíð, þorskur

Hér segir frá slíkum fiskrétti, gratíneruðum þorskhnökkum í dillsinnepssósu. Þorskurinn var nýr en allt hitt var til í matarkistunni heima. Ég gerði sósuna úr majonesi, 18% sýrðum rjóma og slettu af dillsinnepi að viðbættu hvítlauksdufti og limepipar. Fiskinn skar ég í munnbita og blandaði í skál saman við matarafganga sem voru svartar baunir úr dós, ofnsteikt blómkál, soðnar/ofnsteiktar kartöflur og hálfur rauðlaukur sem ég brytjaði smátt. Ég saltaði þessa blöndu og hrærði svo sósunni saman við. Allt fór síðan í eldfast mót og rifnum osti stráð yfir. Herlegheitin voru loks ofnbökuð við 200¨C í 30 mínútur.

Með þessu var borið fram ferskt salat og súrdeigbrauð sem ég bakaði fyrr um daginn.

Súrdeigsbrauð, heilhveiti

Dillsinnepið fékk ég í Krónunni á sínum tíma og hefur reynst skemmtileg viðbót við bragðflóru matarbúrsins. Það er bragðmikið og dillið áberandi. Því er vissara að gæta hófsemi við skömmtun til að ganga ekki fram af eigin bragðsmekk.

Dillsinnep


Laufeyjarlykill

Laufeyjarlykill Primula vulgaris ssp sibthorpiiÞennan Laufeyjarlykil fékk ég gefins úr öðrum garði í Reykjavík sumarið 2019. Þá hafði plantan lokið blómgrun. Hún var komin í fullan blóma í byrjun maí 2020 og hafði þúfan stækkað töluvert við sig. Ég sé því fram á að geta skipt henni í haust. Hún er það eina sem blómstrar svona snemma hjá mér eins og er því væri gaman að sjá hana víðar í litla garðinum.

Laufeyjarlykill er af ætt Maríulykla og ber fræðiheitið Primula vulgaris ssp. sibthropii. Á vef grasagarðs Akureyrar segir að plantan henti í steinbeð, fjölæringabeð og kanta. Hún myndar knúppa á haustin sem bíða svo blómgunar fram að hlýjum vordögum. Skipta má plöntunni á haustin.

 


Plöntur í garðinum - 1

Við erum að koma okkur upp garði í kjölfar þess að við fengum upp skjólgirðingu. Þó ég kunni nöfn á nokkrum blómum í íslenskri náttúru treysti ég mér ekki til að muna hvað plöntur í garðinum okkar heita þegar fá líða stundir. Við lögðum upp með þá áætlun í fyrst hluta að fá nokkrar sígrænar plöntur og eitt lágvaxið tré sem hentar í litla garða.

Það komst snemma á hreint að tréð skyldi vera koparreynir, (Sorbus koehneana). Plantar var keypt hjá Gróðrarstöðinni Mörk sem lýsir henni svo: Harðgerður, runnkenndur og fíngerður. Hvít ber að hausti, gulir og rauðir haustlitir. Plantan blómgast í júlí. Full hæð: 200-400 cm. Myndin er frá Mörk.
Koparreynir

 

Aðrar plöntur eru þessar:

Garðaýr "Farmen", (Taxus x media 'Farmen'). Plantan var keypt í Gróðarstöðinni Mörk sem lýsir henni svo: Sígrænn, breiðvaxinn runni. Þarf skjólgóðan stað. Skuggþolinn. Þrífst vel í grónum garði. Full hæð: 60-150 cm.
Garðaýr Farmen

Kínaeinir "Wilhelm pfitzeriana", (Juniperus chinensis 'Wilhelm pfitzeriana').
Kínaeinir Wilhelm pfitzeriana

Skriðmispill, (Cotoneaster adpressus). Plantan var keypt í Gróðarstöðinni Mörk sem lýsir henni svo: Fremur harðgerður. Fallegir haustlitir og rauð aldin (ber). Hentar best í fremur sendnum jarðvegi. Þolir hálfskugga. Blómgunartími: júní til júlí. Full hæð 20-50 cm.
Skriðmispill

Fyrir áttum við nokkrar plöntur sem staðið hafa í kerjum síðan við fluttum. Þetta eru:

Kínablóm (Astilbe chinensis). Plantan var keypt hjá Gróðarstöðinni Storð árið 2017. Þar er henni lýst þannig: Þrífst vel í hálfskugga á hlýjum stað. Þarf rakan og næringarríkan jarðveg. Þolir illa að þorna alveg. Myndar fallega brúska. Blómgast í ágúst-september. Full hæð 50-60 cm.
Kínablóm

 

Blárifs "Perla"
Blárifs


Japanskvistur "Little princess".

Japanskvistur


Birkikvistur

Birkikvistur


Rósakálið sigrað

Allt frá miðjum níunda áratug síðustu aldar hef ég reynt að borða rósakál því það ku vera bráðhollt. Mér hefur ekki þótt það gott, fundist það beiskt og stundum með myglukeim. En ég hef ekki gefið mig heldur prófað það af og til, aftur og aftur, líkt og ráðlagt er með matvanda krakka. Með þessu móti tókst mér að borða tómata þó ég steyfi þá ekki úr hnefa. Ég ólst upp sem matvandur krakki og sú sjálfsmynd loddi lengi við mig þó inneignin fyrir henni sé löngu uppurin. Ég verð stundum agndofa þegar matargestir okkar byrja að tína af disk sínum eitthvað sem þeir vilja ekki úr réttinum eða afþakka hið prýðilegasta meðlæti.

Ofnsteikt rósakál

En nú hefur rósakálið verið sigrað því ég hef fundið eldunaraðferð sem gerir það ljúffengt fyrir minn smekk. Hér var rósakálið sótt frosið úr poka og síðan ofnsteikt eftir að hafa verið velt upp úr blöndu af ólívuolíu og balsamik sírópi með saltlús. Síðan er það sett á bökunarpappír í eldföstu formi. Það rennur nokkur safi af því svo þess vegna finnst mér hentugra að hafa það frekar í formi en á plötu. Til að bæta um betur má hafa rauðlauk með í forminu. Ofnhitinn er 175¨C og það dugar að elda rósakálið í 20-25 mínútur.


Heilhveitibollur - heilhveitirúnstykki - loksins

Það hefur verið löng leitun að góðri uppskrift að heilhveitirúnstykkjum. Eins og fastir lesendur vita hef ég lengi bakað úr gerdeigi og náð góðu taki á þeirri kúnst. En ég hef ekki fyrr en nú fundið uppskrift sem ég vil nota aftur og aftur. Ég datt niður á uppskrift að hvítum rúnstykkjum sem ég breytti og sú breyting dugði við fyrstu tilraun. Þessi er komin til að vera.

Munið að trixið við gerbakstur er að hafa deigið eins blautt og mögulegt er til að geta handfjatlað það. Ekki moka í það hveiti af óþolinmæði á meðan þið hnoðið deigið. Besta hjálpin er að nota hrærivél og stilla á tímatöku, 5 mínútur á lægsta hraða og svo 5-8 mínútur á meiri hraða.


Heilhveitirúnstykki - heilhveitibollur

Uppskrift:

  • 3 bollar brauðhveiti (blátt Kornax)
  • 1/2 bolli heilhveiti (frá Kornax)
  • 1 msk + 1 tsk þurrger (instant)
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk hunang
  • 2 msk olívuolía
  • 1 1/2 hálfur bolli volgt vatn (45°C)

Aðferð:

  • Þurrefnum blandað saman í hnoðskálinni, síðan er olíu, hunangi og vatni helt út í. Allt hnoðað saman í 10-15 mínútur. Ekki bæta við hveiti á meðan hnoðað er. Klístrið minnkað þegar lengur er hnoðað. Látið hefast í skálinni í 40 mínútur. Hafið breitt yfir skálina á meðan með plasti og handklæði þar yfir. Það er til að halda raka og hita í deiginu.
  • Setjið svo deigið á borð, stráið pínulitlu hveiti á borðplötuna áður, ég meina pínulitlu, ein matskeið í mesta lagi, svo ekki festist við. Það má ekki hnoða meiru hveiti saman við deigið því það hveiti fær ekki tíma til að brjóta sig með gerinu og hefur áhrif á baksturinn. Hnoðið deigið létt saman, látið það svo hvíla undir viskustykki á borðinu í 3 mínútur. Þá verður auðveldar að móta. Skiptið í 12 bita og hnoðið létt í kúlur.
  • Raðið bollunum á bökunarplötu (ég hef bökunarpappír undir), breiðið viskustykki yfir. Kveikið á bökunarofninum núna, stillið á 250°C. Látið bollurnar lyfta sér á eldhúsborðinu í 30 mínútur. Setjið svo brauðmetið í ofninn og lækkið hitann strax í 200°C. Bakað í um 10 mínútur eða þangað til kominn er fallegur, gullinn litur á brauðin.

Uppskriftin sem ég studdist við er héðan. Það var hvítt brauð þar sem notaðir voru 4 bollar af hveiti.


Súkkulaðikaka með sykurrýru kremi

Súkkulaðikaka með sykurrýru kremi

Ég hef bakað sömu súkkulaðikökuna í áratugi, djöflatertu úr uppskriftabæklingi Osta- og smjörsölunnar. Hún hefur alltaf staðið undir nafni, verið syndsamlega góð. Nú prófaði ég aðra uppskrift sem mun veita hinni harða samkeppni. Þær eru þó svo ólíkar, bæði í aðferð og áferð, að ég myndi telja það frekar til fjölbreytni að hafa báðar uppskriftirnar í gangi. Djöflatertuna hef ég alltaf hrært í matvinnusluvél því mér finsnt hún ekki verða eins góð ef ég nota hrærivél.

Sérstaða þessarar köku er kremið sem í er einungis suðusúkkulaði, sýrður rjómi og vanilla. Í 100 gr af suðusúkkulaði er innan við helmingurinn sykur og það verður að teljast lítið í 2 dl af kremi. Sýrði rjóminn gerir kremið frísklegt og leyfir súkkulaðibragðinu í kökunni og kreminu að njóta sín að fullu. Uppskriftin er héðan.

Kökudeigið:

  • 1 bolli hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1/2 bolli ósætt kakóduft
  • 3/4 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk gróft salt
  • 1 stórt egg
  • 1/2 bolli nýmjólk
  • 1/4 bolli ólívuolía
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1/2 bolli sjóðandi vatn (eða heitt, lagað kaffi)

Kremið:

  • 1 bolli (120 gr saxað suðusúkkulaði)
  • 1/2 bolli sýrður rjómi
  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn í 175¨C. Fóðrið ferkantað form sem er 20x20 cm með smjörpappír, berið þunnt lag af feiti á hliðar og botn.
  2. Blandið saman þurrefnum: hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, matarsódi og salt og sigtið saman í hræriskálina.
  3. Bætið við eggi, mjólk, olíu og vanillu. Hrærið á litlum hraða þar til þetta hefur blandast saman. Aukið þá í miðlungshraða og hrærið í 2 mínútur.
  4. Hrærið heitu vatninu (kaffinu) varlega saman við. Athugið að deigið verður mjög þunnt.
  5. Hellið deiginu í formið. Bakið í 35 til 40 mínútur eða þar til tannstöngull sem stungið er í kökuna miðja kemur hreinn úr henni aftur.
  6. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í forminu í 10 mínútur. Lyfið kökunni úr forminu með því að grípa í pappírinn og látið hana kólna á grind þar til kakan nær stofuhita.
  7. Búið til kremið á meðan.
  8. Setjið brytjað súkkulaðið í skál sem má fara í örbylgjuofn. Hitið þar súkkulaðið á hálfum krafti í 30 sekúndur í senn og hrærið vel á milli með sleikju þar til súkkulaðið hefur bráðnað alveg. Hrærið súkkulaðið áfram af og til þar til það hefur kólnað að stofuhita.
  9. Hrærið sýrða rjómann í sundur í skál með sleikju og bætið kældu súkkulaðinu saman við hann ásamt vanillu þar til það blandast vel og farið að léttast.
  10. Smyrjið kreminu á kalda kökuna, skerið í bita og njótið. Vissara er að geyma kökuna í kæli ef eitthvað verður eftir af henni.

Bakki sem er borðleggjandi

Bakki eftir breytingu

Það má flikka upp á fleira en flíkur. Lengja má þannig lífdaga hluta og gefa þeim nýjan sess. Hér er bakki sem ég keypti á 200 krónur í Hertex og flikkaði upp á með „decoupage“ aðferð, þ.e. álímdum pappír. Útkoman er ljómandi góð og bakkinn fallegur á borði. Mér hefur aldrei tekist að tileinka mér skeytitísku sem sumir kallar „drasl á bakka“.  Þegar ég raða hlutum á bakka verður uppsetningin aldrei eins sjarmerandi og á myndum sem ég sé á lífstílsbloggum eða í tímaritum. Svo ég ætla að reyna aðra nálgun, hafa bakkann bara fallegan í staðinn og minna á honum. Á þennan hef ég hugsað mér að setja blómapotta sem standa á borðstofuborðinu. Þeir eru stundum fyrir okkur og þá væri hentugt að geta fært þá til með því að ýta við bakkanum í stað þess að selflytja blómin hvert um sig.

Bakki

Bakki fyrir breytingu


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband