Vorvindar glaðir

MálshátturNú er vorið loksins komið til að vera hér í DiSí. Það var yndislegur dagur í dag, 23 stiga hiti og skordýrin ekki komin á kreik. Fólk talar um að þetta sé besti árstíminn. Ég er nú samt búin að kaupa mér flugnafælu því allur er varinn góður.

Ég hef góðar fréttir að færa og valhoppa innan í mér yfir þeim. Ég fékk inni í klínísku sálgæslunámi (CPE, Clinical Pastoral Education) í nágrenninu í sumar. Svo ég kem bara heim í stutt frí eftir að önninni lýkur og fer svo aftur út yfir sumarið. Skólasystir mín bauð mér að búa á heimili hennar á meðan svo ég slepp héðan út af vistinni. Það verður langþráð hvíld. Með í pakkanum fylgja hundur og köttur sem ég passa í leiðinni. Ég hef aldrei átt hund né kött, veit varla hvort geltir eða mjálmar. Kötturinn er reyndar sjálfvirkur, hann vill bara éta en að öðru leyti vera látinn í friði. Hundurinn er óþjálfaður en svo latur að það kemur ekki verulega að sök nema hann ræðst á allt matarkyns sem liggur á glámbekk og lætur engar umbúðir standa í vegi fyrir sér.

Páskaeggið mitt var hið besta og fyrst og fremst vegna þess að ég borðaði það ekki ein heldur í góðum félagsskap sonarins sem kom færandi hendi frá Íslandi. Eftir situr málshátturinn á rafmagnsrofanum á veggnum ofan við skrifborðið mitt: "Eftir vinnunni fara verkalaunin". Þetta gæti ekki átt betur við en einmitt núna á lokaspretti annarinnar. Í dag skilaði ég myndarlegri ritgerð í listasögu og nú leggst ég yfir ritskýringarritgerð um Jobsbók - með snúning. Við eigum að skrifa ritgerð og setja svo saman listræna eða skapandi útfærslu á framsetningu efnisins. Ég fór öfuga leið, hannað listaverk með þema í huga og svo verður ritgerðin ritskýring á listaverkinu með hliðsjón af Jobsbók. Þetta er bara spurning um hvaða kveikjan kemur. Við horfðum í kvöld á nemendauppfærslu skólans á þekktu leikriti um Jobsbók, J.B., sem flutt hefur verið á Broadway, og verður það tekið fyrir í næsta tíma. Við erum búin með námsefni annarinnar á þessu námskeiði svo framundan er uppgjör á afrakstrinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband