Kanabrauð

KanabrauðRúnnstykki sem ég baka hér út eru engu lík. Ég er búin að týna uppskriftinni einu sinni og til að eyða ekki tíma mínum aftur í slíka dauðaleit þá set ég hana inn á bloggið. Hún er aðlöguð að mínum smekk út frá grunnuppskrif sem ég segi svo meira frá í lokin.

600 gr hveiti
1/2 tsk salt
1/2 tsk sykur
4 tsk þurrger
2 msk olívuolía
5 dl volgt vatn

Í minni útfærslu skipti ég út hluta af hveitinu. Ég byrja á 9 dl (500 gr) af hveiti, 1 dl af haframjöli og 1/2 dl af hveitikími. Deigið þarf að vera heldur rakt því haframjölið tekur í sig nokkuð af vökvanum við lyftingu. Ef þarf þá nota ég hálfan desilítra til viðbótar af hveiti en það kemur ekki í ljós fyrr en búið er að elta allt deigið saman og það loðir vel saman. Fyrsta lyfting er 45 mínútur. Hnoða, skipta upp í 12 bollur og raða á plötu. Síðari lyfting er 20 mínútur á meðan ofninn er að hitna. Bakað við 210°C í 8-10 mínútur.

Mér finnst best að frysta það sem ég ætla ekki að borða sama dag og taka brauðin svo úr frosti eftir hendinni. Ég læt þau yfirleitt þiðna við stofuhita og tek þau þá út áður en ég fer að sofa til að eiga nýtt brauð í morgunmat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Nú stend ég (sit öllu heldur) næstum á blístri eftir kvöldmatinn: heimatilbúin samloka úr nýbökuðu brauði. Á henni var kalkúnakjöt, ostur, rúkóla og slikja af sinnepi og majónesi. Með þessu bar ég fram heita, ofnsteikta, sæta kartöflu:

Uppskrift fyrir einn - ofnsteikt sæt kartafla:
Blanda saman: 2 msk olívuolía, hálf teskeið ítalskt krydd, karrý á milli tveggja fingra, saxaður hvítlauksgeiri, saltlús og svartur pipar.
1 lítil sæt kartafla, flysjuð, skorin í tvenn þversum og svo í 16 geira. Velta upp úr olíublöndunni.
Raða á bökunarpappír og inn í 225°C heitan ofn í  15 mínútur.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 29.3.2009 kl. 23:24

2 identicon

Jæja. fyrst fær maður uppskrift af brauði og svo nýja útfærslu strax. Gætirðu gert þetta flóknara?. Jæja, ekki meira um það. Mig langar næstum því að fara að baka brauð en hef ekki gert það lengi eða síðan sænsku áhrifin fóru að dvína upp úr 1995 þegar 9 ár voru liðin frá dvöl minni í Svíaríki. Keypti mjög gott brauð í gær á kr 445 í Mosfellsbakaríi. Það er gott en dálítið dýrt... Jæja, enn og aftur.

ragnheiður sverrisdóttir (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband