Vinna mín með krabbameinssjúklingum

Stærstur hluti sjúklinga minna á sjúkrahúsinu þar sem ég er í klínísku sálgæslunámi, er krabbameinssjúklingar. Þetta er fólk sem hefur fjórða stigs krabbamein, ýmist nýgreint eða hefur glímt við sjúkdóminn um árabil. Þau eru í þeirri stöðu að engin meðferð er til við þeirra sjúkdómi og eru hér í tilraunameðferð sem getur engu lofað. Það er nú svo að allur gangur er á því hvort sjúklingarnir vilja þiggja þann stuðning sem boðinn er. Það eru frekar þeir sem eru tiltölulega nýgreindir sem vilja aðstoð. Þeir sem hafa háð langa baráttu eru margir komir inn á það plan að sleppa takinu og njóta þess sem þeir þó enn geta. Það er gott og eðlilegt. Þessir hafa oftar þörf fyrir að ræða sín þakkarefni.

Þá eru það aðstandendurnir, þeim stendur stuðningur líka til boða. Ég hitti þetta fólk augliti til auglitis og býð þeim aðstoð en hún er yfirleitt ekki þegin. Ég er á því að fólk eigi því ekki að venjast að tala um hvernig því líður og það áttar sig ekki á hvaða möguleikar felast í nærverunni. Aðstandendur standa oft í ströngu á meðan veikindin standa yfir, þeir reyna að halda sjó og huga ekki að sjálfum sér fyrr en sjúklingurinn er látinn. Þá hefur mikil vinna setið á hakanum og hún getur verið sár eftir uppsafnaða bið því sumt þurfti að ræða á meðan ástvinurinn var enn hjá þeim.

Svo eru það hinar fagstéttirnar. Það er afar einstaklingsbundið hvaða skilning fagfólkið hefur á því hvort sjúklingar og aðstandendur þurfa aðstoð og það er mis opið fyrir framlagi minnar deildar til velferðar sjúklinganna. Vinnuhraðinn og vélvirknin hjálpar ekki til en það sem mín fagstétt hefur fram yfir hinar er að við getum sest niður, tekið þann tíma sem þarf og hlustað á fólk án þess að vera á hlaupum í næsta verkefni.


mbl.is Matspróf á vanlíðan krabbameinssjúkra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband