Innflutningur og tilfæringar

Mér brá þegar ég áttaði mig á að hingað hefur ekki komið færsla síðan síðla árs 2014. Það verður að segjast eins og er að Fésbúkkinn hefur tekið við sem miðlari þó það hafi bæði kosti og galla. Kostirnir eru einfaldleiki þess að setja inn færslu, fleiri lesendur og viðbrögð lesenda. Á blogginu hér fást varla nokkur viðbrögð, ég verð að deila færslunni á FB svo einhver lesi hana og fæ svörin þar inn en ekki hér. Enda er heldur flóknara fyrir fólk að skilja eftir svar hér en á FB En hér get ég skrifað meira í einu án þess að velta mér upp úr því hvort einhver nenni að lesa það og nota bloggið þá frekar sem dagbókarform til eigin ánægju.

Ég flutti í fyrra. Það hefur tekið hálfa eilífð að koma sér fyrir og ég hef ekki enn getað útbúið mér viðunandi aðstöðu fyrir hannyrðir og föndur. Núna stendur yfir tilraun til að gera anddyrið að vinnurými. Arkitektúr samtímans er stundum furðulegur. Gamla íbúðin okkar sem bvggð var 1958 nýtti fermetrana mjög vel. Sú sem við fluttum í var byggð 2004. Anddyrið og gangurinn inn eftir íbúðinni í framhaldi af því eru 13 fermetrar. Anddyrið er 10 fermetrar, í löguninni 2x5 metrar, með dyrnar á annarri skammhliðinni. Slíkur flötur væri stórt og rúmgott svefnherbergi. Það nýtist ekki sem sjónvarpshol en gæti verið heimaskrifstofa. Það mætti fylla annan vegginn af fataskápum og hafa bókahillur eftir hinum endilöngum. Nú stendur yfir tilraun, að gera það að vinnustofu fyrir mig þar sem inngangurinn er stúkaður af með skáp og ef til vill með léttum vegg síðar. Áður en nokkuð varanlegt verður sett þar upp ætla ég að prófa að lifa og hreyfa mig í rýminu og sjá hvort saumavélinni og tölvunni semji á sama borðinu.

Það var ekkert tekið til fyrir þessa myndatöku. Þetta er eins og ljósmynd af ófarðaðri kvikmyndastjörnu. 

Vinnurými 1

Vinnurými 2

Þetta eru mikil viðbrigði eftir að hafa átt vinnuherbergið á gamla staðnum þar sem ég hafði tvö vinnuborð og hillur sem auðvelt var að komast að, stóran glugga og hurð sem mátti loka þegar óreiðan fór fyrir brjóstið á mér. En það þýðir ekki að gráta það. Annað rými, annað líf. Líklega á nýji staðurinn eftir að verða einhverjum öfundarefni sem býr við þrengri húsakost en ég.

Gamla vinnuherbergið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband